Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Friðrik fær það ekki með ástkonum sínum

Blessuð og sæl Ragga

Ég er 46 ára og bara í þokkalegu ástandi líkamlega sem andlega. Ég er einhleypur og vill halda því þannig, en ég á 3 vinkonur sem eru á sama stað og ég - vilja bara „single“-lífið og ég hef verið að sofa hjá þeim í nokkur ár (í sitthvoru lagi), svona þegar þeim hentar og öfugt.

Allt hefur gengið vel þangað til fyrir um 6 mánuðum að þá hætti ég alveg að geta fengið sáðlát með konunum. Ég æsist alltaf jafn mikið upp við að hitta þær og rís hold, svo get ég verið að eins lengi og ég hef þrek til, en þetta er farið að valda ákveðnum vandræðum. Núna eru vinkonur mínar farnar að spyrja hvort ég sé að missa áhugann á þeim, en það er fjarri lagi, áhuginn er jafnmikill og í byrjun, og neistinn jafnvel sterkari. En ef ég á að geta klárað þá verð ég að sjá um það með sjálfum mér. Ég er búin að fara yfir síðasta ár í þaula og það hefur ekkert gerst, breyst, eða komið upp á andlega eða líkamlega sem ég kem auga á.

Um daginn fór ég til dæmis heim með konu sem ég hitti á skemmtistað og allt gekk eins og í sögu nema þetta, ég náði ekki að klára sjálfur. Þetta hljómar kannski eins og maður sé með egóið í hæstu hæðum og þar af leiðandi óþolandi týpa, en svo er nú ekki. Ég hef alltaf verið kurteis og kunnað mannasiði. En þetta er að eyðileggja fyrir mér og ég veit bara ekki hvað skal taka til bragðs. Eitt enn er að þær vita ekki af tilvist hinna. Veit bara ekki hvernig ég get líst þessu betur fyrir þér. Er allur af vilja gerður að gera það sem til þarf til að koma mér í lag hvað þetta varðar. Vesenið hlýtur að vera á mína ábyrgð. Ég yrði agalega þakklátur ef þú gætir gert eitthvað til að aðstoða mig í þessu Ragga.

Með fyrirfram þökk,

Friðrik

Elsku Friðrik Takk kærlega fyrir bréfið. Ég ætla að byrja á öfugum enda og skrifa ögn um það sem þú minnist á síðast í bréfinu - að ástkonurnar viti hver um sig ekki af tilvist hinna. Kannski skiptir þetta engu máli, en mig langar bara að minna þig á hvað það er frábært að þurfa ekki að fela neitt og lifa í sannleikanum. Ef konurnar þínar þrjár gera hver um sig ráð fyrir því að þú sért þeim trúr, ráðlegg ég þér að koma út úr skápnum með sannleikann. Það er svo glatað að þurfa að laumast, kíkja yfir öxlina á sér og ganga stöðugt úr skugga um að þú sért ekki að afhjúpa þig. Fullt af fólki kann prýðilega við að eiga sér kynlífsleikfélaga án þess að um einkarétt sé að ræða, en flestir kjósa að hafa sannleikann að leiðarljósi og fyrir því eru tilfinningalegar og heilsufarslegar ástæður. Ræddu þetta við dömurnar þínar þrjár - kannaðu hvort einhver þeirra gengur um með brúðkaupsóra og drauma um að skrifa undir húsnæðislán með þér hið fyrsta. Ef ekki þá er allt í góðu og þú heldur þínu þrefalda striki vinur minn.

En að sáðlátinu - eða vöntuninni á því með dömunum þínum. Fyrirbærið kallast seinkað sáðlát og er vel þekkt vandamál hjá körlum (1-4%), þó að það sé alls ekki eins algengt og of snemmt sáðlát (15-30%). Formlega skilgreiningin er sú að taki það 30 mínútur eða meira fyrir karlmann að fá sáðlát í samförum, þrátt fyrir fullnægjandi stinningu, sé hægt að líta svo á að sáðlátið sé seinkað. Auðvitað fer svo algerlega eftir afstöðunni að hvaða marki karlmaðurinn upplifir þetta sem vandamál. Góður vinur minn er hæstánægður með að hafa samfarir tímunum saman, en hefur reyndar aðeins einu sinni hitt fyrir konu sem kunni til fulls að meta þann eiginleika.

Ef þú hefur fram að þessu stundað þitt kynlíf með sterkan fókus á fullnægingu og sáðlát í samförum sem markmið get ég skilið að það sé ákveðið sjokk að gamla góða hjakkið sé skyndilega hætt að virka. Breytingin veldur þér ama, líka viðbrögð ástkvennanna sem halda að þú sért orðinn afhuga þeim… og samanlögð niðurstaða verður frammistöðukvíði sem er byrjaður að krauma innra með þér.

Á bak við seinkað sáðlát geta legið ýmsar líkamlegar ástæður til að mynda aukaverkanir lyfja, taugaskemmdir, lækkað testósterón eða skjaldkirtilshormón, sýkingar í blöðruhálskirtli eða þvagfærum. Ef þú telur einhvern möguleika á slíku væri ráð að leita til heimilislæknis.

Ef það er hins vegar klárt mál að ekkert líkamlegt liggur að baki er bara það andlega eftir. Þú segir allt hafa gengið að þínum óskum þar til fyrir hálfu ári þegar þú gast skyndilega ekki fengið það lengur „sjálfur“. Ég get ímyndað mér að eftir fyrsta skiptið hafi lítill áhyggjusnjóbolti rúllað af stað og orðið til þess að auka líkurnar á því að þetta gerðist aftur. Áhyggjur, streita og sambandsvandamál geta haft áhrif. Skoðaðu hvað er að gerast innra með þér og hvort eitthvað þar gæti tengst ástandinu. Ef hvorki gengur né rekur gæti borgað sig að kanna málið frekar með aðstoð ráðgjafa.

Hver sem hin raunverulega ástæða er getur eftirfarandi verið gagnlegt fyrir þig á þessu stigi:

Reyndu að endurskilgreina markmið kynlífsins og njóta frekar en að stefna að sáðláti í samförum

Kannaðu hvort ástkonunum gæti þótt gaman að sjá þig „klára“. Margar konur njóta þess að horfa á karlmenn fróa sér Útskýrðu breytingarnar sem þú ert að upplifa fyrir ástkonunum. Segðu þeim það sem þú skrifaðir mér í bréfinu - að þú sért alveg jafnsjúkur í kynlífið… en eitthvað valdi því að þú færð ekki sáðlát á sama hátt og áður. Einlægni er sexý!

Gangi þér sjúklega vel, Ragga

#AudienceEngagement #Blog

 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com