Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Raðframhjáhaldarinn Guðmundur hefur ekki tölu á ástkonunum: „Maður má aldrei láta nappa sig“

Hann er tæplega fimmtugur, myndarlegur maður með þykkt skollitað hár og skegg. Alveg mín týpa. Hávaxinn í grænum, veiðilegum jakka og með góða skeggrót. Hann hefur ótvíræðan sjarma, er daðurslegur til augnanna frá fyrstu mínútu okkar kynna. Reyndar kynntumst við fyrst í rafheimum, því hann hafði samband við mig á stefnumótavef og langaði til að kynnast mér með kynlíf á skrifstofutíma í huga. Ég hafði ekki áhuga, en fannst hann skemmtilegur og kurteis og upp úr spjalli okkar féllst hann á að veita mér viðtal um margfalt líf raðframhjáhaldarans. Við skulum kalla hann Guðmund. Margfalt líf Guðmundar Guðmundur býr í úthverfi í Reykjavík ásamt konu sinni til 24 ára og fjórum börnum, þau eru reyndar fimm, en það elsta flutti að heiman í haust. „Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef haldið framhjá. Flest tilvikin eru eitt skipti, á djammi eða í vinnuferðum í útlöndum, en það eru líka nokkur lengri sambönd sem ég hef átt í. Þetta krefst fáránlega mikillar orku, því ég er mjög harður á því að það komist aldrei neitt upp. Ef svona kemst upp, eða ef fólk er svo vitlaust að játa fyrir makanum í einhverju samviskubitskasti, þá verður það bara til að særa og eyðileggja. Það gildir einu þó að þú ætlir að enda sambandið. Ef endalokin eru komin þá áttu bara að ganga frá þínum málum og skilja, án þess að blanda framhjáhaldi eða játningum í umræðuna. Fólk sem gerir það lendir í kvöl og rifrildum og svoleiðis getur haft slæm áhrif á samskiptin það sem eftir er – já, og bitnað á börnunum. Ég veit um allt of mörg þannig dæmi.“

Mikil kynorka og þörf fyrir viðurkenningu Guðmundur vill ekki meina að hann haldi framhjá vegna þess að ást eða kynlíf vanti í hjónabandið.

Auðvitað er ég búinn að spá talsvert í þetta, því þetta er langvarandi munstur hjá mér og veldur mér mikilli streitu oft og tíðum. Ég held að þetta sé blanda af því að hafa mikla kynorku og að þörf fyrir viðurkenningu og staðfestingu á því að ég sé girnilegur. Líka einhver flóttatilhneiging. Þá getur verið mikil fróun í því að máta sig inn í allt aðrar aðstæður – þetta verður eiginlega „live“ fantasía. Ég held samt að þetta munstur hafi gert mér kleift að haldast í þessu hjónabandi. Ef ég hefði neitað mér um þetta væri ég löngu sprunginn og skilinn.

Passað upp á smáatriði Þú talar um streitu. Er þetta ekkert farið að hafa slæm áhrif á heilsuna hjá þér? „Ég get ekki staðið í þessu stöðugt. Þegar ég hef tekið stíf framhjáhaldstímabil þá byrjar þetta fljótlega að éta mig að innan. Það er svo slítandi að þurfa alltaf að vera að horfa yfir öxlina á sér, passa upp á öll smáatriðin. Ég þarf í fyrsta lagi að passa upp á öll samskipti – spjalli á samfélagsmiðlum eyði ég jafnóðum og auðvitað þurfa öll lykilorð að vera algjörlega prívat. Ég nota helst ekki sms, en símtöl stundum og passa þá að eyða símtalasögu. Símanúmerin legg ég helst á minnið í stað þess að vista þau í símaskránni. Ef ég sit heima við tölvuna á kvöldin, þá er nokkuð öruggt að ég er að spjalla við einhverjar konur, þá passa ég mig alltaf á að sitja upp við vegg, þar sem öruggt er að enginn geti komið aftan að mér og séð á skjáinn. Símtöl tek ég aldrei heima, heldur passa að gera það þegar ég er á ferðinni einn, eða í vinnunni.“

Lyktin er hættuleg Guðmundur hefur oft hitt ástkonur sínar í hádegishléum eða þegar hann þykist vinna fram eftir. Hann segir það vera ákveðna kúnst að láta ekki komast upp um sig vegna þess. „Jú, biddu fyrir þér. Það er ekkert grín þetta með konur og lykt. Þær finna smæstu breytingu á lykt svo að það er lykilatriði að vera ekki að sturta sig upp úr ókunnugri sápu á heimilum úti í bæ. Stundum hef ég farið í sund með krakkana eftir svona heimsóknir, klórlyktin er mjög góður dulbúningur. Þegar ég hef verið í lengri framhjáhaldssamböndum hef ég líka verið með sturtusápu sjálfur hjá hjákonunni, það hljómar svakalega útsmogið en það kemur í veg fyrir alls konar vesen. Svo er líka mikilvægt að halda sínu striki og bregða ekki út af neinu á heimavelli. Ég veit um menn sem hafa látið samviskubitið hlaupa með sig í gönur og kaupa blóm og gjafir í kjölfar framhjáhalds – það er það vitlausasta sem þú getur gert. Það verður allt að vera eins og áður. Sumir verða líka svaka graðir ef þeir fá allt í einu egóbúst frá hjákonunni og fara að stunda miklu meira kynlíf heima. Það er líka grunsamlegt. Svo það er um að gera að halda sama taktinum. Það sama gildir um að byrja allt í einu að kaupa sér töff föt, skipta jafnvel um stíl og fara að huga brjálæðislega að útlitinu. Breytingar þurfa að vera hægar, svo að þær standi ekki upp úr hversdagslífinu og veki grunsemdir.“

Hugsað fram í tímann Konu Guðmundar hefur oft grunað að hann haldi framhjá henni. Hann segir að í þeim tilfellum sé hann afdráttarlaus og skýr í svörum og játi aldrei neitt. „Hún hefur alltaf trúað mér á endanum og þrátt fyrir allt ríkir gott traust okkar á milli. Maður má aldrei láta nappa sig á einhverju óöryggi þegar grunsemdir koma upp. Þess vegna gildir að vera alltaf viðbúinn. Ef ég hef heimsótt viðhald á stað í bænum sem ég ætti ekki annars að vera á, þá er ég búinn að hugsa nokkra leiki fram í tímann. Hvað ef einhver sá mig? Hvað ef einhver sá bílinn minn? Ég er alltaf búinn að undirbúa svona spurningar ef þær skyldu koma. Ef ég léti koma mér á óvart, væri flóttalegur og þyrfti að hugsa mig um og búa til einhverja sögu á staðnum, væri löngu búið að nappa mig.“ Tilfinningar ástkvennanna Í framhjáhaldi er þriðji aðilinn til staðar og sá hefur vissulega tilfinningar. Skyldu ástkonurnar alltaf hafa verið sáttar? „Nei, aldeilis ekki. Ég er samt alltaf skýr hvað varðar að ég sé ekki að fara að breyta neinu varðandi mína hjúskaparstöðu – ég ætla að halda áfram í mínu hjónabandi, enda er ekki yfir neinu að kvarta þar. Oftast gengur þetta vel og þær skilja formerkin og bera virðingu fyrir þeim, en það hefur komið fyrir í lengri samböndum að þær hafi viljað meira eða jafnvel orðið ástfangnar. Það er ekki skemmtilegt að lenda í því að fá símtöl heim til dæmis. Þá er skellt á ef konan svarar, og svo hringt aftur og talað ef ég svara. Það vekur auðvitað grunsemdir. Í þessum tilfellum hef ég þurft að enda samböndin hratt og vel, svo hingað til hafa svona tilvik ekki valdið neinni meiriháttar dramatík. Þetta snýst allt um væntingastjórnun. Ef það er á hreinu frá upphafi að ég muni ekki fara frá fjölskyldunni minni, vita þær að hverju þær ganga.“ Mikil ást að gefa Hefur þú aldrei orðið ástfanginn og langað að skilja við konuna? „Jú, svo sannarlega. Ég hef oft orðið mjög hrifinn og jafnvel mátað mig í huganum inn í einhverjar allt aðrar aðstæður en ég bý við í dag. Mér hefur samt aldrei þótt það þess virði því ég er ánægður heima. Ég lít á málið þannig að ég hafi mikla ást að gefa, en því miður er samfélagið ekkert sérstaklega jákvætt gagnvart þeim sem vilja elska marga í einu, og þess vegna er ég að gera þetta í felum. Ef ég ákveð einn daginn að skilja mun ég samt ennþá halda þessu öllu leyndu fyrir henni. Vitneskjan mundi bara særa hana og það væri algjör óþarfi.“


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com