Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Sársauki við samfarir

Ímyndið ykkur kynlíf… kynlíf er gott og notalegt - eða ætti í það minnsta að vera það. Í huga flestra er kynlíf tengt við nautnir, nánd og losta - en því miður eru á því undantekningar og fyrir sumar konur eru samfarir eitt það sársaukafyllsta sem þær lenda í. Hugsið ykkur að líða eins og hárbeittu hnífsblaði sé stungið inn í ykkur í hvert sinn sem komið er við leggangaop ykkar (lesendur sem hafa á sér getnaðarlim geta kannski ímyndað sér að beittum hnífsoddi sé stungi í kónginn). Það skyldi engan undra að í slíkum aðstæðum verður kynlíf lítið spennandi, og lendir aftarlega á forgangslista daglega lífsins.

Viðvarandi verkjavandamál sem nánast útilokar að hægt sé að njóta kynlífs getur haft víðtæk áhrif á lífsgæði og líðan. Kvíði, þunglyndi, svefntruflanir, slæm líkamsímynd og sambandsvandamál geta komið upp hjá þeim sem þjást. Kynlíf er mikilvægur hluti lífsins, og ein af grunnþörfum okkar - ef kynlíf er illa mögulegt vegna verkja verða því lífsgæðin mun lakari.

Langvarandi verkir eru erfiðir við að eiga, greiningin er vandasöm því erfitt er að „mæla“ verki sem eru huglæg upplifun þess sem þá hefur. Hér bætist við að þvi miður eru vandamál tengd kynfærum feimnismál hjá sumum, og blygðunarkennd kemur í veg fyrir að konur leiti sér hjálpar.

Ýmislegt getur valdið konum verkjum við samfarir, en það sem lýst er í byrjun greinarinnar kallast á fræðimáli vulvodynia - vulva vísar þar til ytri kynfæra konunnar og dynia til verkja. Hugtakið vestibulodynia er notað þegar sársaukinn er bundinn við svæðið kringum leggangaopið.

Á vefsíðunni www.vulvalpainsociety.org er samfélag áhugafólks um píkuverki sem deilir upplýsingum, rannsóknum, ráðum og stuðningi. Þar er meðal annars að finna lýsingar kvenna á upplifun þeirra af vandanum:

„Minnsti þrýstingur á húðina í kringum leggangaopið mitt olli hryllilegum sting, eins og ég hefði verið stungin af býflugu eða væri að nudda salti í opið sár. Verkurinn var eiginlega viðvarandi. Kynlíf var skelfilega sársaukafullt og eftir á þurfti ég að jafna mig með því að leggja ísbakstur á píkuna. Það var ekkert sérstaklega kynþokkafullt, hvorki fyrir mig né manninn minn. Þegar læknir skoðaði mig leit ég alveg eðlilega út, en það jók bara á vanlíðan mína því ég stóð mig að því eina ferðina enn að reyna að sannfæra lækni um að eitthvað væri að mér. Eða var eitthvað að? Sektarkenndin sem ég fann fyrir var svakaleg. Mér var alls staðar sagt að slaka bara á og að sársaukinn væri vegna streitu og spennu.“ Þessi frásögn er frá Lotty sem er 25 ára og þjáðist af vulvodynia í áratug. Hún leitaði sér hjálpar víða og prófaði ýmislegt, þar á meðal krem, deyfikrem, bakstra, mikla vatnsdrykkju, breytingar á mataræði, sjúkraþjálfun og samtalsmeðferð, en allt kom fyrir ekki. Hún lýsir því hvernig einn meðferðaraðili ræddi um að kannski væri kynlíf bara ekki fyrir hana. Líf Lotty breyttist þegar hún kynntist kvensjúkdómalækni sem trúði henni, greindi hana með vestibulodynia og ákvað að bjóða henni skurðaðgerð þar sem húðin við leggangaopið var fjarlægð. „Fyrir mig virkaði aðgerðin. Sársaukinn er farinn og ég get loksins notið kynlífs.“

Louie er 65 ára og hefur átt við verkjavandamál að stríða í 5 ár. Hún hefur farið til 11 lækna á því tímabili, en flestir þeirra voru á miklum villigötum og greindu hana með ýmsa kvilla aðra en þann sem hún þjáðist af. Louie fann vefsíðuna og segist þá loksins hafa áttað sig á þvi hvað var að, og að hún væri hvorki snarbiluð né ein í heiminum. „Ég nota mínar aðferðir til að gera lífið bærilegra, eins og að klæðast ekki þröngum buxum og sitja helst ekki lengi. Verst er að þetta hamlar mér í ferðalögum og til dæmis get ég helst ekki setið lengi á tónleikum.“

Pamela hafði þjáðst um árabil og reynt í 5 ár að taka þunglyndislyfið amytryptilin án árangurs. „Ég ákvað að prófa nálastungumeðferð og er steinhissa á hvað það hefur virkað vel. Eftir sex skipti er ég nánast laus við einkennin. Það er frábært að vakna verkjalaus á morgnan eftir öll þessi ár. Ég mæli með að konur prófi nálastungur þó að ég viti að meðferðin virkar ekki fyrir alla.“

Hvað?

Vulvodynia einkennist af viðvarandi, óútskýrum verkjum í píkunni, nánar tiltekið í húðinni á yfirborði hennar. Algengast er að sársaukinn sé í kringum leggangaopið, en hann getur líka verið í börmum eða sníp. Stundum er hann staðbundinn og alltaf á sama stað, en í öðrum tilfellum færist hann til. Hjá sumum konum geta verkirnir leitt niður innanverð læri eða aftur í rasskinnar. Sársauki sem er algjörlega staðbundinn kringum leggangaopið er oftast kallaður vestibulodynia.

Konur lýsa sársaukanum sem stingandi, brennandi, sviða, viðkvæmni, slætti eða kláða.

Vandinn getur komið upp hjá konum á öllum aldri, oft eru þær hraustar að öllu öðru leyti.

Oftast eru engin sjáanleg einkenni - ekki bólga, útferð eða breytingar í húð.

Áreiti við leggangaopið, til dæmis snerting með fingrum, túrtappa, eða tippi getur framkallað verki. Seta þar sem þrýstingur á svæðið er mikill og þröng föt geta líka valdið versnun.

Ástæður

Ástæður fyrir vandamálinu eru alls ekki á hreinu. Þó þykir ljóst að um einhvers konar taugaviðbragð er að ræða, bólgu í taugum eða jafnvel skaða á taugum á svæðinu. Tíðar fyrri sýkingar eru taldar geta haft áhrif og sömuleiðis ofnæmi eða viðkvæmni í húð. Mögulega hefur hormónabúskapur konunnar eitthvað að segja, og einnig gætu verið tengsl við vöðva grindarbotnsins. Vandamálið er margþætt og flókið, meðferðin er alls ekki hrein og klár, og margar konur hafa upplifað vonleysi og uppgjöf þegar hjálpin virðist nánast ómöguleg.

Hvað er til ráða?

Það er alls ekki einfalt mál að greina vandann, en mikilvægt að útiloka að um sé að ræða eitthvað sem má laga með tiltölulega einföldum hætti, eins og sýkingar, eða til dæmis vöðvahnúta sem gætu leitt til skurðaðgerðar eða legnáms.

Eins og sést af dæmunum hér að ofan hafa konur fengið meina sinna bót með ólíkum hætti. Lyf eins og amytriptilin (þríhringlaga þunglyndislyf) og gabapentin (flogaveikilyf) hafa gagnast í sumum tilfellum. Ríkuleg notkun sleipiefnis við samfarir er mikilvæg og deyfikrem eða -gel eins og Xylocain geta gert gagn. Sumar konur hafa orðið betri við nálastungumeðferð, og fyrir aðrar hefur gagnast að vinda ofan af vítahring ótta og vanlíðunar með hugrænni atferlismeðferð.

Sársauki við samfarir - Nokkrar mögulegar ástæður:

  • Blöðrur á eggjastokkum

  • Legslímuflakk

  • Afturstætt leg

  • Þvagfærasýkingar

  • Sýkingar í leggöngum

  • Vöðvahnútar í legi

  • Þurrkur í leggöngum

  • Utanlegsfóstur

  • Lichen planus (á íslensku kallað flatskæningur, útbrot í slímhúð)

  • Vaginismus (krampi í leggangaopi)

Listinn er ekki tæmandi og ástæður geta verið margar. Ef þú upplifir endurtekið sársauka við samfarir eða ert farin að forðast samfarir vegna sársauka er um að gera að leita ráða hjá heimilislækni eða kvensjúkdómalækni.


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com