Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Æ ertu ekki að fara að koma? - Seinkað sáðlát

„Er það nú ekki bara lúxusvandamál?“ spurði vinur minn þegar ég minntist einhverju sinni á seinkað sáðlát sem eitt þeirra vandamála sem karlar geta strítt við í kynlífinu. „Ég kvarta að minnsta kosti ekki,“ hélt hann áfram og hló, „er ekki bara hverrar konu draumur að vera með manni sem endist allt kvöldið?

Kannski hefur hann eitthvað til síns máls, enda er kannski ekki hægt að tala um seinkað sáðlát sem vandamál nema að það valdi manninum hugarangri og/eða trufli ástarlíf hans. Málið snýst um að geta notið ásta með þeim hætti sem er fullnægjandi fyrir hvern og einn - og tímalengd standpínu eða sá tími sem karlmaður getur haft samfarir fyrir sáðlát er líklega ekki besti mælikvarðinn á gæði ástarleikja.

Í fræðunum er talið að um 1-4% karla þjáist af seinkuðu sáðláti. Til samanburðar má nefna að 15-30% karla þjást af of hröðu sáðláti - þeir fá það of snemma.

Formlega skilgreiningin er sú að ef það tekur karlmann 30 mínútur eða meira að fá sáðlát í samförum, þrátt fyrir fullnægjandi stinningu, sé hægt að líta svo á að sáðlátið sé seinkað - en athugið að auðvitað þarf það að vera truflandi fyrir viðkomandi karlmann.

Einkenni og ástæður

Sumir sem þjást af vandanum geta mjög sjaldan eða aldrei fengið sáðlát eða fullnægingu.

Stundum getur karlmaðurinn fengið sáðlát án vandræða og mun hraðar í sjálfsfróun, en vandamálið kemur fram þegar stunda á samfarir með öðrum.

Hjá sumum er seinkunin bara bundin við ákveðnar aðstæður eða kynlíf með ákveðnum mótaðilum.

Ástæður fyrir seinkuðu sáðláti geta verið ýmsar. Stundum eru þær sálrænar, sumir langvarandi sjúkdómar geta haft þessi áhrif, og sum lyf geta valdið því að sáðlát kemur seint og illa.

Sálrænar ástæður geta til að mynda átt rót sína í áföllum eða neikvæðni og skömm gagnvart kynlífi vegna menningar eða trúarbragða. Kvíði og þunglyndi geta haft hamlandi áhrif á kynlöngun, sem svo getur orsakað seint sáðlát.

Streita í samböndum, slæm samskipti og reiði geta aukið á vandann.

Sumir karlmenn með seinkað sáðlát fá meiri nautn út úr sjálfsfróun en út úr samförum. Oft hafa þeir vanist á að fróa sér á sérstakan hátt - gjarnan með mjög föstu gripi og hröðum hreyfingum. Tilfinninguna er mjög erfitt að endurskapa með hjálp handar, munns eða legganga kynlífsfélaga.

Misræmi milli kynóra og kláms sem notað er með sjálfsfróun annars vegar og kynlífs með raunverulegri manneskju hins vegar, er líka talið geta haft áhrif á þróun seinkaðs sáðláts.

Seinkað sáðlát í samförum með kynlífsfélaga getur skapað frammistöðukvíða sem eykur á vandamálið eftir því sem tíminn líður. Þannig verður til vítahringur sem erfitt getur verið að rjúfa.

Meðal lyfja sem geta orsakað seinkað sáðlát eru þunglyndislyf af SSRI-gerð (dæmi um innihaldsefni: fluoxetin, sertralin, paroxetin og citalopram) sem eru algeng í dag.

Líkamlegar ástæður geta verið:

  • Taugaskemmdir á mænu eða í grindarholi

  • Taugaskaði af völdum aðgerða í grindarholi, sér í lagi á blöðruhálskirtli

  • Sýkingar í blöðruhálskirtli eða þvagfærum

  • Lágt testósterón

  • Lágt skjaldkirtilshormón

Meðferð við seinkuðu sáðláti

Meðferð veltur á orsök vandans.

Ef sértæk sálræn eða líkamleg vandamál eru undirliggjandi ber að meðhöndla þau.

Ef lyf eru líkleg orsök má stilla af eða breyta lyfjameðferð í samráði við lækni.

Ákveðin lyf hafa reynst vel sem meðferð við seinkuðu sáðláti þó að ekkert lyf hafi ennþá formlega ábendingu til að meðhöndla vandann.

Ef vandi er til staðar í sambandi er vænlegast að makinn taki þátt í meðferð.

Ef sjálfsfróunarmynstur truflar sáðlát í samförum er hægt að nota markvissar aðferðir til að breyta mynstrinu.


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com