Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Eitruð ást narsissistans - Ertu flækt(ur) í netinu?

Hefurðu einhvern tíma flækst í net narsissista? Hefurðu kannski átt í ástarsambandi við einn slíkan? Einhvern sem dýrkaði jörðina sem þú gekkst á í upphafi sambandsins og sá hvorki sól, ský né bláma himinsins fyrir þinni dýrðlegu návist. Hann átti erfiða fortíð, og líklega nokkrar mjög erfiðar fyrrverandi kærustur, og trúði þér fyrir hlutum sem enginn annar hafði fengið að heyra.

Þér fannst samband ykkar djúpt og sérstakt og hlutirnir gengu hratt fyrir sig. Hvað var fólk að setja út á sambúð þremur vikum eftir fyrstu kynni ef að svona einstök dýpt var til staðar?

Skyndilega einhverjum mánuðum síðar breyttist allt. Hann fór að finna að hegðun þinni, útliti, gjörðum og því sem þú sagðir. Bara allt í einu, og þú vissir ekki hvaðan á þig stóð veðrið. Hann gat farið í fýlu yfir því hvernig þú hrærðir í sósunni, eða ef þú svaraðir ekki sms-i frá honum tafarlaust. Fýlan gat varað í nokkra daga eða jafnvel vikur, með tilheyrandi þögn og þótta. Allan tímann reyndir þú að átta þig á því hvað þú gerðir rangt. Þú fórst að greina mynstur í samskiptunum ykkar - hvenær varð hann reiður og hvenær glaður og kátur. Allt til að forðast neikvæðu tímabilin Stundum glitti vissulega í gömlu rómantíkina og þær stundir voru sætar eins og kandífloss. En óvissan óx og fljótlega varstu ekki lengur viss um að við hann væri að sakast.

Hann var duglegur að fá þig til að efast um atburði og samtöl sem þú varst viðstödd og hélst að þú myndir greinilega - nei hann var með aðra útgáfu og mjög sannfærandi. Varstu kannski að verða eitthvað biluð? Aðra stundina efaðist þú um að hann væri í lagi, en hina fannst þér þú hljóta að vera vandamálið. Smám saman byrjaði hann að niðurlægja þig í viðurvist vina. Kannski sagði hann eitthvað um að þú værir svo mikill klaufi, eða barnaleg. Þegar þú ræddir við hann eftir þessi atvik til að láta vita að þér hafi þótt athugasemdir hans óþægilegar hló hann bara og kallaði þig viðkvæma: „Hva má maður ekki stríða þér aðeins?“. Þig fór að gruna að þú værir ekki eina konan í lífi hans en góðu stundirnar voru ennþá svo sætar að þú vildir síður sjá merkin. Hann sat stöðugt í símanum og passaði sig á að snúa bakinu í vegg - hann var örugglega að tala við vinnufélaga. Hann vann frameftir og fór að mæta í ræktina í tíma og ótíma - frábært að hann væri að hugsa svona vel um líkamann. Hann vildi djamma einn - voða fínt að vera duglegur að rækta sambandið við sjálfan sig. Kynlífið varð minna - já þú hafðir lesið um að sveiflur í kynhvöt væru algengar hjá mönnum á þessum aldri. Hann kom heim löðrandi í ilmvatnslykt sem þú þolir ekki - „það voru konur á eftir mér allt kvöldið.“ Eflaust fékkstu að heyra meira og meira um konurnar sem reyndu við hann úti um hvippinn og hvappinn, og hvað þú værir heppin að hafa nælt í hann: „Þó að þú sért orðin ógeðslega löt að fara í ræktina.“ Og já þetta var eflaust bara grín líka! Svo kemur í ljós að fyrrverandi kærastan hans er á eftir honum - hann fer að bera ykkur saman - býr til dramatískan þríhyrning sem gerir þig ennþá óöruggari í sambandinu. Hann er farinn að stjórna tilfinningalífi þínu - gleði, ótta, kvíða og sorgum. Sveiflurnar eru miklar og óútreiknanlegar.

Upplogna sagan hér að ofan gæti verið dæmigerð fyrir byrjun sambands milli tveggja gagnkynhneigðra einstaklinga þar sem annar er með persónuleikaröskun. Í þessu tilfelli, og í þessari grein, er karlinn narsissistinn en það gæti líka verið öfugt. Ferlið sem lýst er gæti tekið nokkra mánuði, nokkur ár eða áratugi. Svona samband gæti jafnvel enst allt að andláti hans eða hennar.

Narsissismi

Fyrirbærið er nefnt eftir grískri goðsögu um íðilfagra veiðipiltinn Narcissus sem var svo hrifinn af eigin spegilmynd í stöðuvatni að hann komst ekki frá vatninu til að borða… það dró hann til dauða.

Narsissismi er samansafn einkenna og ef einkennin eru nógu mörg er talað um narsissíska eða sjálfsdýrkunar persónuleikaröskun (e. Narcissistic Personality Disorder).

Við erum öll með einhver einkennanna og stundum getur verið erfitt að greina milli þess að hafa heilbrigt sjálfstraust eða sterka sjálfsmynd og að vera með narsissíska persónuleikaröskun. Talið er að um 1% fólks sé með röskunina. Hún er algengari hjá körlum - en reyndar er talið að fagaðilar hneigist frekar til þess að greina konur með jaðar persónuleikaröskun (e. Borderline Personality Disorder). Mörkin milli þessarra greininga geta verið nokkuð óljós, en í greiningarkerfi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, ICD-10, tilheyra þær persónuleikaröskunum af klasa B. Klasi B inniheldur þannig narsissíska persónuleikaröskun, jaðar persónuleikaröskun (e. borderline), geðhrifa persónuleikaröskun (e. histrionic) og andfélagslega persónuleikaröskun (e. antisocial). Klasi B er kallaður dramatíski klasinn - af augljósum ástæðum.

Höldum okkur við narsissistana. Hér er listi einkenna úr greiningarkerfi Bandarískra geðlækna DSM-IV, sem gjarnan eru til staðar hjá þeim sem teljast hafa persónuleikaröskunina:

 • Uppblásin sjálfsmynd og væntingar um sérmeðferð frá öðrum

 • Dreymir um völd, árangur, ofurgáfur og fegurð

 • Lítur á sig sem einstakan, æðri og á sama plani og þeir sem eru frægir og/eða valdamiklir

 • Þörf fyrir stöðuga aðdáun annarra

 • Ætlast til að fá sérmeðferð og fyrirgreiðslu og að aðrir hlýði þeim

 • Notfæra sér fólk í persónulegum tilgangi

 • Skortir áhuga á/getur til að setja sig í spor annarra varðandi tilfinningar, þarfir eða óskir

 • Finna auðveldlega fyrir öfund og trúa því að aðrir öfundi þá

 • Montrassagangur og hroki í framkomu

Eflaust þekkirðu marga með einhver ofangreind einkenni, og kannski fékkstu hland fyrir hjartað því þú ert sjálf/ur með þau. En til þess að um persónuleikaröskun sé að ræða þarf þetta allt að standa í vegi fyrir því viðkomandi eigi nærandi og gott tilfinningalíf bæði innra með sér og í samböndum við aðra. Ekki panikkera strax!

Áhrif narsisissta á annað fólk geta verið mikil og langvarandi. Að alast upp hjá einum slíkum getur litað líf allt og framtíð einstaklings, að vinna með narsissista er frekar óbærilegt, og að eiga í ástarsambandi við hann eða sambúð hefur í mörgum tilfellum afleiðingar sem tekur mörg ár að vinda ofan af. Stundum er sagt að allir nema narsissistinn sjálfur fái hjálp fagaðila - sá veiki er sá eini sem ekki hlýtur meðferð. Orsökin er auðvitað sú að narsissistinn er afskaplega tregur til að horfast í augu við sína eigin röskun og ólíklegur til að taka uppástungu um sálfræðimeðferð fagnandi.

Það kann vel að vera að hann samþykki að koma með þér í sambandsráðgjöf eða álíka meðferð. Líklegast er þó að hann mæti einu sinni til tvisvar og ekki söguna meir. Hann er snöggur að átta sig á því að hann veit miklu betur en meðferðaraðilinn og hefur takmarkaðan áhuga á að sóa tíma sínum í svona vitleysu.

Orsakirnar

Eins og með margt annað sem varðar sálarlíf og sambönd er alls ekki á hreinu hvað liggur að baki persónuleikaröskunarinnar. Það er því miður ekki hægt að mæla eitthvað efni í blóðinu eða gera aðra lífeðlisfræðilega mælingu á einstaklingi sem liggur undir grun og staðfesta hann með óyggjandi hætti. Narsissismi er samansafn einkenna, og ef þau eru nægilega mörg, og hafa nægilega eitrandi áhrif á sálarlíf einstaklingsins og sambönd við aðra er talað um persónuleikaröskun. Fræðifólk hefur heilmikið ritað og rætt um ástæður sem kunna að liggja að baki þess að sumir þróa með sér heilbrigt sjálfstraust á meðan aðrir verða helsjúkir af narsissískri persónuleikaröskun og baneitraðir fyrir umhverfið. Meðal þeirra helstu eru:

 • Vanræksla og óöryggi í æsku

 • Oflof eða skortur á hvatningu í uppeldinu

 • Óútreiknanleg hegðun uppalanda

 • Djúpstæður ótti við höfnun vegna höfnunar foreldris

Reyndar eru margir á því að orsakirnar séu blanda af líkamlegum þáttum og uppeldislegum. Nýleg rannsókn Dr. Stefans Röpke og félaga við Charité háskólan í Berlín gaf til kynna vísbendingar um ákveðið frávik í heila narsissista. Sautján einstaklingar með narsissíska persónuleikaröskun voru settir í segulómun af heila, og þeir áttu það sameiginlegt að hafa minna af gráu efni í þeim hluta heilans sem hefur með samhygð að gera. (Stefan Röpke og félagar. Gray matter abnormalities in patients with narcissistic personality disorder. Journal of Psychiatric Research, 17 June 2013). Þetta á eflaust eftir að verða rannsakað frekar í framtíðinni, en við erum ansi langt frá því að geta bólusett við narsissisma eða öðrum flóknum persónuleikaröskunum.

Spurningalisti sem mælir narsissisma og getur gefið vísbendingu um persónuleikaröskun var settur fram af Raskin og Hall árið 1979. Hann samanstendur af 40 pörum staðhæfinga sem svarandi tekur afstöðu til. Þannig er gerð tilraun til að mæla þætti sem eru áberandi hjá þeim sem hafa röskunina. Prófið að gúgla Narcissistic Personality Disorder Inventory ef ykkur langar að taka prófið! Athugið að við erum öll með einhverja af þessum þáttum í okkar persónuleika - í raun eru þetta sömu púsluspilin sem eru lykillinn að sterkri sjálfsmynd og áræðni. Munurinn er sá að narsissistinn hefur þættina skrúfaða í botn, það hefur áhrif á tilfinningalíf hans og sambönd, og á bak við liggur brotin sjálfsmynd og djúpstæður ótti við höfnun.

Neimdropp og næring

Narsissistinn þarf næringu, og næringin er ekki djúsí hamborgari eða skot af hveitigrasi (sem ku bæta allan fjandann), heldur tilfinningar og aðdáun. Narsissistanum finnst æði að komast í Séð&Heyrt eða baða sig í ljóma þeirra sem eru örlítið frægari en hann. Hann er líklegur til að „neimdroppa“ í tíma og ótíma og virðist hreinlega þekkja alla sem einhverju máli skipta í umræðunni. Ef hann hittir Ívar Guðmunds í sturtunni eftir að hafa tekið á því í ræktinni segist hann líklega vera að æfa með honum, og ef hann er kynntur fyrir Kára Stefáns í kokkteilboði eru þeir orðnir gamlir félagar í því næsta. Í sambandinu nærist hann á þér, og tilfinningunum sem hann framkallar innra með þér. Hann elskar að finna að hann kann að toga í spotta og ýta á takka, svo að þú sveiflist um eins og korktappi í stórsjó. Hann stúderar þig af mikilli nákvæmni og verður á örskömmum tíma algjör sérfræðingur í þínu tilfinningalífi.

Þrír fasar ástarsambands

Í upphafi sambands, fyrsta fasanum, snýst hin nákvæma rannsókn um að framkalla hjá þér jákvæðar tilfinningar - svo jákvæðar að þú hefur hreinlega aldrei lent í öðru eins. Hann virðist alltaf vita upp á hár hvað hann á að segja við þig og hvernig hann á að koma við þig til að þér líði eins og mikilvægustu konu á jörðinni. Þú ert stödd í fyrsta fasanum og hann er byrjaður að vefja netið sitt utan um þig. Ennþá er netið mjúkt og notalegt, og alls ekkert farið að þrengja að.

Þegar hann hefur náð fullkominni stjórn á jákvæðu tilfinningunum þínum er tími kominn á næsta fasa sambandsins. Nú þarf rækilega að gera þér grein fyrir að öll athyglin, umhyggjan og fallegu orðin eru sannarlega ekki sjálfsagt mál. Það er hann sem stjórnar. Hann gæti byrjað á hressilegu reiðikasti vegna einhvers sem hefur aldrei reitt hann til reiði áður. Kannski fannst honum krúttlegt hvernig þú gleymdir alltaf að setja mjólkurfernuna inn í ísskáp, þangað til einn daginn að hann snappar - grýtir fernunni þvert yfir eldhúsið og öskrar á þig. Hvað sem það kann að vera er líklegt að viðbrögðin séu algjörlega úr samhengi við það sem kallar þau fram - og þú stendur eftir hissa og særð. Þegar hann er orðinn rólegur reynir þú kannski að ræða málin við hann - hann gerir lítið úr atvikinu og finnst þú vera að ýkja: „Hva, voðalega ertu eitthvað viðkvæm.“ Svona atvikum fjölgar, en það er nánast engin leið fyrir þig að reikna út hvenær þú átt von á storminum. Það virðist algjörlega tilviljanakennt. Góðu stundirnar koma líka og gamla tilfinningin um að þú sért miðja alheimsins og mikilvægasta manneskjan í heimi hans. Þú þráir þessar stundir.

Þriðji fasinn afhjúpar narsissistann endanlega fyrir augum þér. Þú ert ekki nægilega nærandi fyrir hann lengur og þess vegna ónauðsynleg í lífi hans. Sambandið endar. Sumir segja að í raun þekkirðu ekki kærastann/ástmanninn/eiginmanninn fyrr en sambandið endar. Kannski er það hinn raunverulegi mælikvarði á virðingu og samkennd - að geta hagað sér almennilega eftir að sambandi lýkur. Þó að hann hafi rokið út er afskaplega ólíklegt að þú sért laus við hann. Það er nefnilega erfitt fyrir narsissistann að láta af stjórninni á einhverjum sem hefur nært hans banhungraða og viðkvæma egó í einhvern tíma. Manstu hvernig hann talaði um sínar fyrrverandi þegar þið byrjuðuð saman? Allar þessar snargeðveiku konur sem höfðu dregist að honum… núna ert þú komin í þann flokk og hann er líklegur til að gera það sem hann getur til að búa til dramatískan ástarþríhyrning með því að segja þér frá nýjasta fórnarlambinu. Hún er eflaust miklu betri kokkur en þú, alltaf í ræktinni og til í allt í rúminu sem þú fílaðir ekki.

Þess ber að geta að fasarnir þrír eiga sér ekki endilega stað á línulegan hátt. Oft eru þeir hringur sem endurtekur sig aftur og aftur þar til sambandið rennur sitt skeið. Sambandið gæti endað með látum en narsissistinn er allt eins líklegur til að koma bljúgur til baka. Biðjast afsökunar og sýna allar bestu hliðar sínar. Fyrsti fasinn byrjar þannig aftur og er svo dásamlega sætur að þú hvorki manst né vilt muna eftir allri dramatíkinni. Ert þú ekki líka konan sem ætlaði að breyta honum?

„Gaslighting“

Þetta fyrirbæri dregur nafn sitt af kvikmyndinni Gaslight eða Gasljós sem gerð var eftir sögu Tennessee Williams og kom út árið 1944. Í myndinni segir frá sambandi ungra hjóna, konan er leikin af Ingrid Bergman og maðurinn af Charles Boyer. Maðurinn býr yfir myrku leyndarmáli og slær ryki í augu konu sinnar með ýmsum aðferðum sem fá hana til að efast um eigin geðheilsu. Því miður eigum við ekkert orð á íslensku yfir fyrirbærið - en það hlýtur að koma að því. Narsissistinn er afskaplega gjarn á að beita slíkum aðferðum í samböndum. Þetta gæti til dæmis komið fram í því að hann segi þig muna hlutina vitlaust. „Nei þetta var ekkert svona, ég sagði það aldrei, það varst þú sem sagðir að... “ Og hann er svo sannfærandi að þú ferð að efast um þína eigin dómgreind og minni.

Hér er ein ofurlítil sönn saga: Narsissistinn er einn heima með börnin tvö. Mamman er í vinnuferð erlendis. Börnin eru sofandi og hann fær ástkonu sína í heimsókn. Eldra barnið vaknar og gengur fram þar sem hann sér ókunnuga strigaskó og kvenveski á stól. Í stofunni kemur hann að föður sínum með ókunnu konunni í ástaratlotum. Faðirinn sprettur upp og leiðir barnið aftur inn í rúm. Á leiðinni segir hann að barnið sé greinilega með hita. Daginn eftir vaknar barnið - faðirinn er þá búinn að setja strigaskó móðurinnar og tösku frá henni á stól. Faðirinn talar um óráð, hita og undarlega drauma. Barnið veit hvað það sá og segir móðurinni frá. Faðirinn refsar barninu með því að veita hvorki hrós né knús næsta mánuðinn.

Hvernig losnar maður úr svona aðstæðum?

Ef þú ert svo heppin að átta þig á því að þú sért í sambandi við narsissista er afskaplega ólíklegt að það þýði nokkuð að tala við viðkomandi. Innsæi narsissistans í eigin hegðun er yfirleitt mjög takmörkuð, hann veit best! Hvort ykkar verður til að enda sambandið skiptir ekki öllu máli - í öllu falli er þó líklegt að það verði töluvert verkefni að losna við hann.

Ef þú átt barn eða börn með narsissistanum segir það sig sjálft að þú munt þurfa að eiga í sambandi við hann þar til þau vaxa úr grasi. Það er skömminni skárra að eiga ekki börn með honum - þá er einfaldara að setja mörk og skera hann örugglega og nákvæmlega út úr myndinni. Lykillinn í báðum tilfellum er að bregðast ekki við!

Hann mun reyna að ýta á takkana þína, bæði á neikvæðan og jákvæðan hátt. Hann gæti sent þér sms í tíma og ótíma - annað hvort með fögrum saknaðarorðum og hrósi eða með niðurrifi og ásökunum. Ekki bregðast við! Ekki svara. Klipptu á tengslin eins og frekast er unnt. Hentu honum út af samfélagsmiðlum og ef sms-skilaboðunum linnir ekki er kominn tími til að blokka númerið hans. Þetta er öruggasta leiðin! Það sem hann vill fá fram með áreitinu eru viðbrögðin þín, þau eru hans næring. Hann þráir að finna að hann hafi ennþá vald til að ráðskast með tilfinningar þínar og líðan. Ekki leyfa honum það!

Ef þú ert bundin narsissistanum þínum vegna barna, gæludýra, eigna eða annars og neyðist til að hafa regluleg samskipti við hann er lykilorðið LÁGMARK! Þessi aðferð hefur verið kennd við grágrýti (e. Grey rock method), því að narsissistinn á ekki að geta kreist næringu úr þér frekar en grágrýti. Aðferðin felst í því að sýna lágmarksviðbrögð við öllu því sem hann kann að reyna til að hafa áhrif á tilfinningar þínar. Ekki láta hann blöffa þig út í símtöl og endalausar umræður um eitthvað sem er líðið. Biddu hann frekar að senda þér tölvupóst - kosturinn við slík samskipti er að þá áttu allt skjalfest og hann hefur ekki möguleika á að ljúga til um gang mála eða hver sagði hvað.

Greinarhöfundur varð vitni að stórkostlegu dæmi um grágrýtisaðferðina nýverið á heimili þar sem narsissisti kom við til að sækja afkvæmi sitt. Fyrrverandi konan hans gerði fjögurra ára barnið tilbúið á meðan hann beið í dyrunum. Ekkert spjall umfram hvað barnið ætti að taka með sér. Hann var orðinn ókyrr og tvístígandi enda vanur að geta ýtt á takka með ýmsu móti og uppskorið fyrirtaks næringu að vild. Þegar barnið hafði skoppað út í sólina með bakpokann sinn sneri faðirinn sér við og sagði út um samanbitnar tennur: „Mér finnst hún heimskari í hvert sinn sem ég hitti hana. Hún er að líkjast þér meir og meir.“ Mamman horfði brosandi á hann og svaraði: „Leiðinlegt að þér skuli finnast það. Hafið það gott yfir helgina. Bæ!“ Svo lokaði hún dyrunum og gaf mér high-five!

Þess ber að geta að umrædd kona áttaði sig á því eftir sex ára hjónaband hvaða mann barnsfaðir hennar hefði að geyma. Hún áttaði sig nánast fyrir tilviljun þar sem hún sat á fyrirlestri um persónuleikaraskanir. Eftir það tók fjögur ár að láta skilnað verða að veruleika og hún er búin að ganga í gegnum ýmsa dramatík á leiðinni þangað sem hún er komin núna. Árangurinn næst ekki á einni nóttu!


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com