Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

G-bletturinn: Ýmislegt fróðlegt

G-bletturinn er sérstaklega kynnæmt svæði á framvegg legganganna. Hann er í raun partur af stinningarvef sem umlykur þvagrásina og fyllist blóði þegar konan örvast kynferðislega. Konur fá sem sagt standpínu inn á við. Í vefnum eru kirtlar, svokallaðir Skenes kirtlar, sem mynda vökva við aukið blóðflæði og örvun. Við fullnægingu dragast sléttir vöðvar í kirtilveggjunum saman og vökvinn sprautast út, oft í talsverðu magni. Þetta er það sem sumir hafa kallað sáðlát kvenna, saflát, spraut eða skvört (íslenskun á enska orðinu squirt).

Af hverju G? G-bletturinn á ekkert skylt við G-mjólk, G-strengi eða GStar gallabuxur en hann er hins vegar nefndur eftir þýska vísindamanninum Ernst Gräfenberg (1881-1957). Ernst lærði til læknis í virðulega háskólabænum Göttingen í Þýskalandi og byrjaði á að starfa sem augnlæknir en fannst það ekki nógu sexí og sneri sér fljótlega að kvenlækningum. Hann starfaði framan af í Þýskalandi og þróaði meðal annars fyrstu getnaðarvörnina sem komið var fyrir inni í leginu, hinn svokallaða Gräfenberg hring, sem var forveri lykkjunnar sem við þekkjum í dag. Þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi var þeim ekkert sérstaklega vel við gyðinginn Ernst og honum líklega ekki við þá – hann lenti í fangelsi, en góð kona náði að losa hann út með mútum og koma honum til Ameríku. Hann opnaði kvenlækningastofu í New York og fylltist fljótlega innblæstri til að hefja rannsóknir á kynferðislegum nautnum kvenna. 1950 birtist svo grein eftir hann í International Journal of Sexology sem fjallaði um hlutverk þvagrásarinnar í fullnægingu kvenna. Hann hvatti aðra vísindamenn og meðferðaraðila til að einblína ekki á snípinn í meðferð fullnægingarvanda og reyndi að útskýra hlutverk og möguleika annarra vefja og líkamshluta í fullnægingu kvenna. Í greininni talar Ernst um að kvenlíkaminn hafi mörg kynnæm svæði sem vert sé að gefa gaum að en mesta áherslu leggur hann á örvun á vef sem umlykur þvagrásina og auðveldast er að komast að í gengum framvegg legganganna. Ernst var ekki svo hégómlegur að nefna blettinn eftir sjálfum sér – það gerðist ekki fyrr en um tveimur áratugum síðar þegar Beverly Whipple og John Perry dustuðu rykið af rannsóknum hans og tóku upp þráðinn í nútíma umræðu um þetta mikilvæga svæði kvenlíkamans.

Hvar er hann?

Ef kona er ekki þeim mun fingralengri er yfirleitt betra að hafa aðstoð við að finna og örva G-blettinn. Bletturinn eða svæðið er staðsett hér um bil 5-7 cm inn í leggöngunum á framveggnum, þ.e. veggnum sem snýr að kviðnum. Ef konan liggur á bakinu er hann á milli 11 og 1 en ef hún liggur á maganum er hann milli 5 og 7. Ef konan liggur á hliðinni er kannski full ástæða til að taka fram rúðustrikað blað og gráðuboga! Þegar þreifað er eftir G-blettinum er best að konan sé blaut og að minnsta kosti aðeins örvuð kynferðislega. Við örvun eykst blóðflæði til grindarhols og kynfæra og þá þrútnar svæðið þannig að auðveldara er að finna hvernig þetta svæði legganganna er aðeins öðruvísi viðkomu, gúmmíkennt, ójafnt, jafnvel hrufótt segja sumir.

Hvernig virkar hann?

G-bletturinn bregst yfirleitt vel við þrýstingi, nuddi eða þéttri snertingu. Það er klárlega áhrifaríkast að nota hendur og fingur við örvunina enda er vart hægt að bera hreyfimöguleik og næmni handa og fingra saman við tittling eða titrara. Mörgum konum finnst gott að tveimur fingrum sé rennt inn og þeir beygðir fram á við í taktfast nudd. Aðrar njóta þess ef fingur eru hreyfðir yfir svæðið eins og rúðuþurrkur og sumum finnst þéttar og langar strokur bestar. Munið að það er alltaf best að spyrja. Það er vissulega hægt að nota kynlífsleikföng eða karlmannslim til að örva G-blett. Leikföng með góðri sveigju sem hægt er að beina á rétt svæði eru best og stellingar þar sem konan er ofan á og getur stjórnað með mjaðmahreyfingum eða þar sem karl er aftan á þykja oftast bestar. Þegar G-blettur er örvaður er auðvitað verið að fikta óbeint í þvagrásinni og þess vegna upplifa margar konur tilfinningu um að þurfa að pissa og stoppa sig jafnvel af vegna hræðslu við að missa þvag. Prófið bara að pissa áður en leikurinn hefst og reynið að anda djúpt og láta tilfinninguna ekki trufla. Það er vel þess virði!

Konur sem njóta G-leikja og fullnæginga lýsa slíkum fullnægingum gjarnan sem dýpri og meira alltumlykjandi en fullnægingum sem þær fá við örvun á sníp. Tilfinningin nær upp í höfuð, niður í tær og fram í fingurgóma og fullnægingin varir oft lengur. Góða skemmtun stelpur!


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com