Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

G-blettsmaðurinn í Kópavogi - Viðtalið allt

Í bakhúsi í gamla Kópavoginum býr rúmlega fertugur maður. Hann lítur út fyrir að geta verið frá Ísafirði, pundið í honum er passlega þungt, bringan loðin og vangarnir líka og almennilegar lappir undir líkamanum. Við skulum kalla þennan viðmótsþýða og sjarmerandi mann herra G. G er fráskilinn og vinnur venjulega dagvinnu hjá tölvufyrirtæki í borginni en í frítíma sínum sinnir hann óvenjulegu áhugamáli sínu, sem jafnvel mætti frekar segja að væri köllun. Síðustu 4 árin hefur hann stundað að bjóða konum upp á nudd og sérhæft sig í að framkalla hjá þeim djúpa slökun og fullnægingu með nuddi á G-blett. Hann er ekki lærður nuddari, hann sækist ekki eftir að fá að hafa samfarir og segir þetta vera sína leið til að upplifa nánd og spennu og láta gott af sér leiða. Ég get ekki annað en verið sammála því að fleiri fullnægðar konur hljóti að gera heiminn betri.

Greinin birtist áður í MAN magasín

Bara eðlilegur gaur

Ég þekkti herra G ágætlega í gamla daga gegnum sameiginlega vini og við lentum stundum í sömu veislunum. Hann er skynsamur, vel máli farinn og með skemmtilegan húmor en mig gat ekki órað fyrir því að hann hefði svo gott sem helgað líf sitt fullnægingum kvenna. Við erum vinir á facebook og hann sá status hjá mér um daginn þar sem ég auglýsti eftir vinum sem hefðu reynslu af ástarleikjum með saflátum (konum sem hafa saflát), og bauðst til að segja mér frá reynslu sinni. Við hittumst fullklædd einn fallegan haustdag og herra G átti ekki í vandræðum með að tjá sig um áhugamálið, allan tímann með blik í auga.

Svona lýsir hann því sem á sér stað:

„Ég hitti konurnar yfirleitt á netinu, Einkamálum, facebook eða þá að einhver sem þekkir til bendir þeim á að hafa samband við mig. Eftir dálítið spjall segi ég þeim frá því hvað ég geri og finn fljótlega hvort þær eru spenntar eða ekki. Ef þær hafa áhuga plönum við hitting, annað hvort heima hjá þeim eða mér. Sumum finnst þægilegra að vera á heimavelli, þetta er auðvitað spurning um traust og ég skil vel að það geti verið ákveðinn þröskuldur að mæta heim til ókunnugs manns í bakhús í Kópavoginum. Heima er ég yfirleitt búinn að kveikja á kertum og skapa notalega stemmningu, ég byrja auðvitað á að heilsa og kynna mig og býð dömunni að afklæðast og leggjast á rúmið. Ef hún vill vera í nærbuxum er það í góðu lagi en ég er oftast í bol og stuttbuxum. Fyrst nudda ég bakið og axlir vel og lengi með olíu. Ég er mjög nálægt henni, snerti hana með líkama mínum og fer stundum úr að ofan og læt bringuhárin og skeggið kitla. Þetta fer allt eftir viðbrögðum hennar og tengingunni sem ég finn. Ég hlusta eftir önduninni og hjartslættinum og reyni að nema eins vel og ég get hvernig henni líður. Svo strýk ég rassinn og nudda þétt og vinn mig niður lærin. Þarna fer ég að finna hvort hún vill nánari snertingu, ef hún hreyfir mjaðmirnar á móti mér veit ég að ég er velkominn dýpra. Þá fer ég með fingur milli barmanna og strýk snípinn aðeins, hætti svo smá stund til að skapa enn meiri löngun. Þegar ég held áfram að strjúka snípinn og barmana kyssi ég rassinn og gæli við hann á meðan. Ef hún er búin að segja mér að hún vilji G-blettsnudd prófa ég eftir smá örvun að renna tveimur fingrum inn og þreifa eftir G-blettinum. Sumar þurfa bara smá snertingu þar og fá jafnvel fullnægingu svona aftan frá, en ef ekki bið ég hana að snúa sér við og held áfram. Það er mjög mismunandi hvernig örvun ég þarf að beita. Ef kona kemur til mín og er að upplifa þetta í fyrsta skipti fer ég mjög varlega, ég útskýri að snertingin geti framkallað tilfinningu eins og hún þurfi að pissa. Þær sem eru vanar örvun á þessu svæði vilja oft þéttari snertingu og meira átak. Sumum finnst gott að ég sleiki snípinn á meðan. Allar hafa fengið fullnægingu og bara ein hætt við áður en ég byrjaði að nudda hana.”

Ég er nokkurn veginn orðlaus (eða næstum því)… held að flestar konur myndu seint fúlsa við svona meðferð. „Og hvað?” segi ég „hvernig bregðast þær við?”.

G heldur áfram: “Þær segja að fullnægingin sé dýpri og öðruvísi en fullnæging sem þær fá með örvun á snípnum. Þær fara gjarnan í einhvers konar trans. Ég dreg mig yfirleitt í hlé og gef þeim tíma til að slaka. Grátur er til dæmis mjög algengur. Þá reyni ég bara að hjálpa þeim að jafna sig, held utan um þær, gef þeim vatn að drekka og enda á smá kósístund.”

Lýsingar herra G eru mjög nákvæmar og mjög kynferðislegar, hann segist yfirleitt ekki stunda kynlíf með konunum en þar er ég ósammála honum. Kynlíf er nefnilega miklu meira en bara samfarir og þetta hljómar svo sannarlega eins og uppskrift að góðu kynlífi í mín eyru. En verður hann aldrei graður?

„Jú auðvitað, ég fæ mikið kynferðislegt kikk út úr þessu og stundum runka ég mér sjálfur á meðan ég er að nudda. Ef tengingin er þannig getur þetta líka endað með hefðbundnu kynlífi, samförum. Aðalkikkið fyrir mig er samt spennan og æsingurinn yfir því að geta framkallað svona nautn hjá annarri manneskju. Hjartslátturinn fer upp úr öllu valdi og ég er grjótharður allan tímann en samt er langalgengast að ég einbeiti mér algerlega að þeirra fullnægingu og það leiði ekki til neins meira. Ég get alltaf fengið fullnægingu, það er ekki málið, og í raun er mér frekar illa við að gefa af mér. Þetta er mín aðferð til að fá nándina og nálægð við konur án þess að stofna til nánari kynna.” Þetta hlýtur samt að hafa mikil áhrif á konur, ætli þær komi aftur og aftur, eða verða einhverjar skotnar í G? G útskýrir fyrir mér að hann reyni að klippa á samskipti ef hann finnur fyrir slíku, en vissulega hafi það komið fyrir; “ég á mér auðvitað fortíð og allskonar sambönd, en ég er ekkert að flýta mér núna. Ég veit samt að ég mun verða ástfanginn aftur og þá mun ég hætta þessu, en ég er svo sem ekkert að flýta mér.”

Efnahagslegar afleiðingar?

Vinkona mín er öflug safláta og á spjalli um daginn viðraði hún þá hugmynd að Tryggingastofnun tæki þátt í kostnaði við lök og dýnur fyrir konur sem hafa ríkuleg saflát. Hennar saga er svona:

„Ég skvörtaði fyrst þegar ég var 18 ára. Fram að því hafði kærastanum mínum þáverandi þótt vont þegar ég var alveg að fara að fá það - „Þú ýtir mér alltaf út.” Einu sinni bað ég hann að ýta bara á móti og ég sprautaði mikið. Mikið, mikið, mikið.

Við lékum okkur að þessu næstu þrjú árin og hættum svo saman. Síðan þá (í átta ár) hafa nokkuð margir menn kynnst þessari hlið á mér, og öllum nema einum fannst þetta gaman og voru forvitnir. Ég átti í sambandi við lækni í smá tíma sem dýrkaði þetta og kenndi mér enn meira á sjálfa mig, og nú er svo komið að ég hef oft stjórn á þessu og get framkallað skvört fullnægingar eiginlega þegar mér sýnist með því að leiðbeina rekkjufélaganum. Samt hafa öll mín ástarsambönd enst stutt, því að mennirnir nenna ekki að skipta svona oft um á rúminu.

Ég fæ margvíslegar fullnægingar, ég sprauta ekki alltaf. Sumum finnst það erfitt - halda að þá sé ég að feika eitthvað. Í rauninni er tilfinningin rétt fyrir saflát og eftir meiri fullnægingartilfinning en rétt á meðan. Ég hef alltaf verið mjög heppin með fulnægju í kynlífi og er með stórt og næmt G-svæði, og lengi vel hafði ég t.d. engan áhuga á snípsörvun „Neineinei, hættu þessu kitli - tvo putta inn og ýta upp á við! *SPRRRRRAUT*”

Einn fyrrverandi sagði mér fyrir nokkrum árum að hann hefði lært mjög mikið á líkama mínum og gæti nú látið eiginlega hvaða stelpu sem er fá saflát. Það finnst mér afar fallegt, svona pay it forward.

Stundum er G-bletturinn minn er svo mikið örvaður að ég veit að ég er mögulega að fara að skemma einvern rúm ef ég fæ saflát. Þá þarf ég að biðja menn að slaka aðeins á meðan ég róast. Þetta hefur gjarna espað menn gríðarlega upp og ég skemmdi einu sinni farsíma sem lenti í gusu.

Nokkrar vinkonur mínar hafa beðið um ráðleggingar. Mín ráð eru: Pissa fyrir samfarir. Þegar þú ert alveg að fara að fá saflátsfullnægingu kemur tilfinning eins og þú þurfir að pissa og líkamanum finnst eðlilegt að þú ýtir út með grindarbotni. Leyfðu því að gerast. Ég hef aldrei getað fróað mér til fullnægingar, ég þarf svo mikla nánd og augu til að horfa í, svo ekki búast við að þú getir gert þetta sjálf. Það hjálpar að vita hvar g-bletturinn er.

Mér finnst að við skvörtandi konur eigum að fá styrk frá ríkinu til að endurnýja dýnur og rúmföt reglulega. Safinn er oftast lyktarlaus en stundum ekki t.d. ef margar klukkutíma sessjón er í gangi, og þá kemur stundum þvaglykt af blettunum. Þetta er samt hægt að laga með því að hella ediki í rúmið og leyfa að þorna.”

Örlítið um gyðjublettinn

G-bletturinn er sérstaklega kynnæmt svæði á framvegg legganganna. Hann er í raun partur af stinningarvef konunnar og umlykur þvagrásina. Við örvun og aukið blóðflæði til grindarholsins fyllist stinningarvefurinn af blóði og verður þéttari viðkomu. Konur fá sem sagt standpínu inn á við. Í vefnum eru kirtlar, svokallaðir Skenes kirtlar, sem mynda vökva við aukið blóðflæði og örvun. Við fullnægingu dragast sléttir vöðvar í kirtilveggjunum saman vegna ósjálfráðra taugaboða til sléttra vöðvafruma í kirtilveggjunum og vökvinn sprautast út, stundum í talsverðu magni. Þetta er það sem kallast saflát (e. female ejaculation). Saflát getur orðið á sama tíma og fullnæging en þetta tvennt þarf ekki að fylgjast að.

Konur tala

Ég elska að láta konur skvörta. Ég reyni að lesa mér til um allskonar tækni og horfi á klám og kennslumyndbönd sem eru með þetta sem fókus. Ég er ekki í föstu sambandi en yfirleitt er ég mjög heppinn með hjásvæfur, þær fíla þetta næstum allar. Best finnst mér að fá safann framan í mig og upp í mig. (Karl, 37 ára)

Ég geri þetta meira fyrir manninn minn. Það æsir hann sjúklega að láta mig hafa saflát en ég fæ ekki fullnægingu með því. Hann vill helst fá það yfir sig. Fyrir mig er nautnin frekar fólgin í því að sjá hvað þetta æsir hann. Svo vil ég fá mína fullnægingu öðruvísi með örvun á snípnum. (Kona, 39 ára)

Ég er algjör byrjandi í þessu en ég hef áhuga á að læra að sleppa mér í þessa djúpu gblettsfullnægingu. Tilfinningin um að þurfa að pissa hefur oft stoppað mig, en nú er ég farin að geta slakað á. Mér finnst skipta miklu máli að elskhuginn kunni til verka, fyrir mig virkar best að örvunin sé öflug og markviss. Hingað til hef ég skvörtað tvisvar og ég er mjög spennt fyrir framhaldinu. (Kona, 38 ára)

Í fyrsta sinn sem þetta gerðist var ég 28 ára. Elskhuginn var alveg með þetta á hreinu. Þetta var partur af valdaleik, ég handjárnuð á hnjánum og hann gjörsamlega hamaðist á mér með höndunum. Rúmið varð rennblautt, ég varð mjög hissa en þessu fylgdi líka algjör sæluvíma. Alveg síðan þetta gerðist fyrst hefur saflát verið partur af mínu kynlífi. Í dag fæ ég oft saflát með fullnægingum, jafnvel þó að ég sé bara að fróa mér með snertingu á sníp. Magnið af vökva er mest ef það er langt síðan ég fékk það síðast. (Kona, 41 árs).


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com