Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Kynlífsklúbbur í Hollandi: Á ferð og flugi með Ástu og Einari

Fjólublátt ljós við barinn, fríir drykkir, diskótónlist og brosandi andlit. En bíddu nú við, allir eru á nærfötum, þarna er kona ber að ofan og viti menn, var þetta ekki tippi sem gægðist út um buxnaklauf?

Jú, ég er aldeilis hrædd um það, ykkar einlæg, kynlífsblaðakonan, er mætt í viðeigandi múnderingu í Fata Morgana, einn frægasta kynlífsklúbb í Evrópu, ásamt íslensku pari sem ferðast reglulega til að sinna áhugamálinu - swingi! Við skulum kalla þau Ástu og Einar.

Þau felldu saman hugi fyrir fimm árum. Bæði áttu að baki löng hjónabönd, og ekki leið á löngu þar til þau höfðu flutt saman í nýkeypt hús á ónefndum stað á stór-Reykjavíkursvæðinu. Ásta er 44 ára og Einar 49, þegar þetta er ritað, og börn þeirra hvors um sig flogin úr hreiðrinu.

„Við smullum svo fullkomlega saman þegar við hittumst. Börnin farin og ekkert annað að gera en byrja að njóta lífsins og áhugamálanna. Við höfum dregið hvort annað inn í áhugamál hins - og svo fundum við swingið í sameiningu,‟ segir Ásta.

Þau giftu sig á fyrsta ári sambandsins og þegar brúðkaupsferðin var plönuð höfðu þau áhuga á að gera eitthvað sexí og spennandi saman. „Okkur langaði á live-show eða eitthvað sniðugt og æsandi, og fórum að skoða möguleikana á netinu. Ég man þegar Einar hringdi í mig og sagðist hafa fundið dálítið sem hann vildi endilega skoða með mér. Það var swingsíðan sdc.com. Við urðum bæði mjög spennt fyrir þessu, en okkur óraði ekki fyrir hvaða áhrif swingið ætti eftir að hafa á líf okkar og sambandið.‟

Skjáskot af SDC vefnum - Swinger's Dating Club. Svaka spennó!

Brúðkaupsferðin var til Amsterdam, borg losta og lasta, og valkostirnir því margir. Fyrsta kvöldið lentu þau á frekar skuggalegum neðanjarðarstað þar sem ótæpilegt magn holds og kroppa var vissulega til staðar, en umgjörðin helst til sjoppuleg.

„Kvöldið eftir vorum við svo fáránlega heppin að slysast inn á Fata Morgana. Allar götur síðan þá hefur það verið okkar uppáhaldsklúbbur, og við höfum ekki tölu á skiptunum sem við höfum komið hingað.‟ Þarna var rétta stemningin komin fyrir nýgift hjón í leit að ævintýrum. Hreinn og smekklegur staður, veitingar og huggulegt umhverfi til ýmiss konar athafna.

Leyfið mér að leiða ykkur inn í klúbbinn

Hann er í hálftíma fjarlægð frá Amsterdam og stendur við hraðbraut. Keyrt er í gegnum hlið, í innkeyrslu með snyrtilegu grjóti og fallegri lýsingu. Gróðurinn er alltumlykjandi. Á bílastæðinu eru engar druslur - enda erum við stödd í Evrópusambandinu. Við innganginn stendur eigandinn og heilsar Ástu og Einari kumpánlega, enda má segja að þau séu fastagestir.

Við borgum okkur inn - verðið er 100€ fyrir parið, og helmingi minna fyrir staka konu. Í klúbbi sem þessum eru stakar konur velkomnar, en stakir karlar ekki. Svona útskýrir Ásta ástæðuna fyrir því:

„Allir almennilegir klúbbar eru með þetta svona. Það er eins og ef stökum körlum er leyft að koma eyðileggist stemningin undir eins. Þeir eru gjarnari á að brjóta reglur og láta gredduna stjórna sér algjörlega. Konur fíla það yfirleitt mjög illa. Stakar konur eru hins vegar mjög eftirsóttar og vinsælar í þessum aðstæðum.‟

Hinn eigandinn, eiginkonan, tekur við kortunum okkar og að launum fáum við lykla. Svona eins og í sundi. Svo förum við í búningsherbergi þar sem hægt er að geyma verðmæti í skápum og hafa fataskipti ef vill. Símar eru til að mynda ekki leyfðir á staðnum. Klúbburinn opnar klukkan 21, en klukkustund síðar byrja fatareglur að gilda. Það þýðir að gestir skulu vera klæddir í nærföt, eða annan þokkafullan fatnað. Ásta skellir sér í níðþröngan netakjól, setur hárið upp í afslappaðan hnút og fer í töflur. „Ég er löngu hætt að nenna að vera í hælum eða einhverjum flóknum fötum. Eftir smá stund verð ég hvort sem er komin úr öllu.‟ Einar er í smekklegum nærbuxum og dálítið goth-legum bol að ofan, hann fer líka í töflur. Ykkar einlæg er klædd í nærföt, sokkabönd og blúnduslopp, og já, líka hælaskó, enda fjarri því eins vön og „gestgjafarnir‟.

Við göngum inn í meginrýmið á neðstu hæðinni, já staðurinn er þriggja hæða - þar er dansgólf (með súlu í miðjunni), bar, veitingasalur og huggulegir sófar um allt. Við finnum okkur sæti í veitingasalnum og skellum kjöti á grillið - það er sko allskonar kjöt og hver og einn eldar fyrir sig. Svo er ljómandi fínt meðlæti, sósur og salöt, og á barnum er hægt að fá það sem hugurinn girnist.

Veitingasalurinn þar sem nærfataklætt fólk sat á spjalli...

„Yfirleitt byrjum við bara hér. Fáum okkur gott að borða og spjöllum við fólk. Flestir sem koma hingað vilja líka „mingla‟, þetta snýst ekki allt um ríðingar sko,‟ segir Einar.

Við fylgjumst með fólki og sessunautar mínir heilsa nokkrum gestum staðarins. Það kemur í ljós að margir í kvöld eru fastagestir. „Þeir sem búa hér í nágrenninu koma kannski mánaðarlega, jafnvel oftar,‟ útskýrir Ásta.

Þegar líður á kvöldið fæ ég þetta staðfest gegnum samtöl við gesti staðarins. Þau eiga það öll sameiginlegt að koma reglulega á Fata Morgana. „Ég elska orkuna hérna,‟ segir gullfalleg 5 barna móðir í gull-g-streng einum fata, „við komum einu sinni eða tvisvar í mánuði og fáum að vera frjáls. Við klæðumst því sem við viljum og ræktum sambandið og kynorkuna okkar. Það er alls ekki alltaf sem við tökum þátt í kynlífi. Það er ekki aðalmálið.‟

Þegar klukkan slær 22, verður greinileg breyting á andrúmsloftinu, því þeir sem voru klæddir eins og í fermingarveislu eru nú knúnir til að lúta reglum staðarins og skipta yfir í sexíföt.

Karlarnir eru flestir í teygjunærbuxum og berir að ofan - frekar ófrumlegir. Aðrir sýna meiri metnað og eru í skotapilsum, leðurstuttbuxum eða álíka. Fjölbreytnin er hins vegar allsráðandi hjá konunum. Margar eru í níðþröngum kjólum, sokkabönd sjást víða, líka netasamfestingar, og einstaka latexpils… Það er ljóst að hér er meira hold sjáanlegt en á öðrum dansiböllum!

„Jæja, nú fara leikar bráðum að æsast,‟ segir Ásta, og stingur upp á því að þau sýni mér restina af húsinu áður en allt fer á fullt

Af jarðhæðinni er hægt að ganga út á dásamlega verönd með sundlaug og bekkjum - svona eins og í sundlaugagörðum sólarstranda, bara miklu rúmbetri bekkir og fleiri púðar. Í sundlauginni svamlar allsbert par. Það er líka risastór innipottur, sturtuklefar og prýðileg aðstaða til að njótast í bleytu - fyrir þá sem eru í þannig skapi.

Þarna gæti nú aldeilis verið huggó að kela og sóla sig!

Á tveimur efri hæðunum eru leikherbergin - þar fer kynlífið fram. Rýmin eru fjölbreytt að stærð og gerð. Þarna er herbergi með nuddbekkjum, líka dálítið BDSM-herbergi með fjötrahúsgögnum, og staðurinn stærir sig af stærsta myrkraherbergi Evrópu. Í venulegri herbergjunum er þægileg lýsing, stór og rúmgóð „rúm‟ með svartklæddum dýnum - og allsstaðar eru staflar af handklæðum og skálar fullar af smokkum. Ég hef hvergi séð svona mörg handklæði saman komin - ekki einu sinni í Ikea.

Nú er greinilega eitthvað fjör að byrja því tvö pör smeygja sér framhjá okkur og nánast kasta sér í hrúgu á dýnu inni í einu herberginu. Við horfum á smá stund. Stelpurnar krjúpa og kyssast með hendur á brjóstum hverrar annarrar. Karlarnir strjúka þeim - þeir kyssast ekki. Við förum aftur niður og fáum okkur sæti í setustofu með arni og risastórum sjónvarpsskjáum á veggjum. Í sjónvörpunum eru hljóðlausar klámmyndir í gangi.

Ég spyr hvor þau séu búin að ákveða hvað þau ætli að gera í kvöld. „Okkur langar að minnsta kosti að kíkja í nuddherbergið. Ætli við látum það svo ekki ráðast. Yfirleitt tökum við þátt í 3-4 leikjum, enda er opið hérna til 4 í nótt.‟ Já kvöldið er ungt.

Lestu annan hluta hér

Lestu þriðja hluta hér


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com