Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Róbert langar í kynlífsklúbb en er hræddur um að konan sé ekki til í það

Kæra Ragga

Ég hef fylgst með greinum þínum um kynlífsklúbbinn í Hollandi sem þú heimsóttir með þeim Ástu og Einari. Greinarnar hafa kveikt áhuga hjá mér að láta loksins verða af því að heimsækja svona klúbb - en um árabil hefur mig dreymt um það.

Hins vegar eru tvö ljón í veginum. Í fyrsta lagi er það mitt eigið óöryggi. Ég er frekar þéttvaxinn maður, reyndar hár og ekki svo ómyndarlegur í framan, og það veldur mér miklu óöryggi. Mér finnst til dæmis vandræðalegt að fara í sturtu með öðrum karlmönnum í sundi, og fer helst í sturtu heima eftir ræktina.

Í öðru lagi er það konan mín. Ég er ekki týpan til að halda framhjá henni, eða gera eitthvað svona einsamall í viðskiptaferð erlendis - en því miður er ég hræddur um að hún mundi aldrei samþykkja heimsókn í svona klúbb. Hún er mjög vönd að virðingu sinni og kannski er best að lýsa henni sem hefðbundinni þegar kemur að öllu kynferðislegu. Við erum bæði komin á sextugsaldur, og stundum kynlíf, en ekki oft, kannski einu sinni í mánuði. Ég ætti kannski að taka fram að við höfum verið gift í næstum þrjátíu ár, elskum hvort annað mikið, og flest annað en kynlífið gengur mjög vel.

Hvað finnst þér? Á ég að láta þetta vera og láta draumórana duga, eða gæti ég tekið einhver skref til að láta drauminn rætast?

Bestu kveðjur og þakkir fyrir skemmtileg og fræðandi skrif,

Róbert

Kæri Róbert

Þú ert örugglega ekki eini miðaldra karlmaðurinn í þessari (eða svipaðri) stöðu. Kynlíf er spennandi og alltaf hægt að finna upp á einhverju nýju - en því miður eru margir sem burðast með skömm eða hugmyndir sem flækja ástundun þess.

En tæklum nú þessi ljón í veginum sem þú lýsir svo ágætlega.

Ljón 1 - tilfinningar þínar gagnvart líkama þínum: Trúðu mér, í svona aðstæðum (kynlífsklúbbum) er fólk af öllum stærðum og gerðum. Í klúbbnum í Hollandi sá ég saman komin vöðvatröll með áttpakk, tággrannar konur með pínulítil brjóst, lágvaxna karla með bumbur, brjóstgóðar gyðjur, transkonur, og heilan helling af ósköp venjulegu fólki. Allir áttu það sameiginlegt að vera í sínu kynþokkaelementi - hver á sinn hátt. Eflaust voru margir á staðnum óöruggir með sig, og eflaust voru líka margir sem einhvern tíma voru óöruggir en hefur tekist að vinna sig í átt að meira öryggi - kannski einmitt með því að mæta í svona klúbba.

Ástæður fyrir líkamsóöryggi geta verið mýmargar, og ómögulegt fyrir mig að greina þær á bréfinu. En þetta er að minnsta kosti eitthvað að hugsa um.

Ljón 2 - konan: Þetta ljón er mun viðkvæmara en hitt. Margir eru smeykir við að stinga upp á einhverju við maka sinn, eða opinbera sínar innstu fantasíur og þrár. Það sem liggur að baki er líklega höfnunarótti. Við að afhjúpa okkar innsta kjarna verðum við viðkvæm og auðsæranleg - við viljum ekki verða að athlægi og því síður yfirgefin. Í svona stöðu hef ég oft ráðlagt fólki að fá til liðs „þriðja aðila“ til að opna umræðuna. Þá á ég ekki við eiginlega persónu sem sest niður með ykkur, heldur þriðja aðila í formi bókar eða skrifa, eða jafnvel bíómyndar. Segjum að þú lesir grein uppi í rúmi fyrir svefninn sem svo skemmtilega vill til að fjallar um swing. Það gæti verið ágætis opnun fyrir þig til að fá fram hennar álit. Með því að segja henni hvað þú ert að lesa, og mögulega ýja að því hverjar þínar tilfinningar eru gagnvart því, gætir þú opnað á samtal sem er ekki ógnandi eða skelfilegt fyrir hana. Þetta gæti verið fyrsta skrefið, og viðbrögð hennar gætu komið þér á óvart. Mögulega hefur hún verið í svipuðum hugleiðingum, en ekki þorað að færa þær í orð af ótta við að særa þig. Annað eins hefur nú gerst.

Ég vona að þessi ráð komi þér eitthvað áleiðis og óska þér alls hins besta,

Ragga


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com