12 leiðir til að komast yfir sambandsslit

April 11, 2018

Það er ömurlegt að slíta ástarsambandi og ef þú ert hvorki vélmenni né siðblindingi eru líkur á að í kjölfarið fylgi erfiður tími. Þetta á við jafnvel þó að þú hafir haft frumkvæði að slitunum og þau séu kærkomin eða jafnvel léttir. Þó sýna rannsóknir að þeim sem ákveða ekki að slíta sambandinu, heldur er „dömpað“, líður sýnu verr en þeim sem taka ákvörðunina.

Hér eru nokkur gagnleg ráð handa þeim sem eru nýlega hættir í sambandi. Elskurnar, þetta verður betra með tímanum!

 

 • Þú munt ganga í gegnum alls konar tilfinningar. Leyfðu þér það og sættu þig við það. 
   

 • Hugsaðu vel um þig. Gættu þess að fá góðan svefn, borðaðu hollan mat og hreyfðu þig. Þetta skiptir máli.
   

 • Forðastu að detta brjálæðislega í það, fara á eiturlyfjatripp eða að stunda kynlíf í hefndarskyni.
   

 • Ekki nöldra í fyrrverandi, ekki hóta, væla eða vera með vesen. Þú getur ekki pínt einhvern til að elska þig.
   

 • Ekki sitja um fyrrverandi á facebook og öðrum samfélagsmiðlum. Það mun bara auka á vanlíðan þína. Feldu viðkomandi frá tímalínunni þinni eða gerðu pásu á tengslum ykkar á meðan þú jafnar þig.
   

 • Reyndu að umgangast vini sem geta stutt þig á jákvæðan hátt og eru inni í málunum. 
   

 • Ekki hika við að leita hjálpar fagfólks. Sálfræðingar eru til dæmis alveg frábærir í að styðja fólk í gegn um svona lífsbreytingar.
   

 • Það er eðlilegt að þér líði undarlega. Þú ert búin/n að missa stóran part úr lífi þínu - sérstaklega ef sambandið var langt.
   

 • Byggðu þig smám saman upp með því að enduruppgötva hluti sem þú nýtur og hvað gerir þig að einstakling - frekar en hluta af heild. Sambandsslit geta verið einstakt tækifæri til vaxtar.
   

 • Reyndu að sjá það sem er jákvætt við endalok sambandsins, til dæmis að byrja upp á nýtt, fá meiri tíma til að sinna hlutum sem þú elskar og svo framvegis. Athugaðu hvort þú getur fundið fyrir létti, frelsi, bjartsýni og valdi til að taka ákvarðanir um þitt eigið líf.
   

 • Tjáðu þig! Sumir skrifa, aðrir tala. Reyndu að koma tilfinningunum, jákvæðum sem neikvæðum, í orð í stað þess að loka þær inni.
   

 • Ekki hræðast það að hitta nýtt fólk… stefnumót og örsambönd geta haft ljómandi jákvæð áhrif á sjálfsmyndina og hjálpað þér að færast fram á við.
   

 • Ef fyrrverandi fer að hitta aðra manneskju, reyndu þá að halda þig til hlés og sýndu nýja sambandinu virðingu. Ef þér tekst þetta mun þér líða betur þegar til lengri tíma er litið.
   

 • Gefðu þér tíma til að jafna þig. Sumir segja að mánuður fyrir hvert ár sem þú varst í sambandi sé raunhæfur tími.

Please reload

Our Recent Posts

Kona fer í legnám

May 25, 2019

Fullnægingar kvenna

May 16, 2019

Kyndauði - þegar sambönd kólna kynferðislega

May 16, 2019

1/1
Please reload

Tags

Please reload

 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com