Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Birna þráir bindingar

Elsku Ragga

Ég hef fylgst með skrifunum þínum í langan tíma og lært svo margt af þér. Núna er ég nálægt fimmtugu, nýskilin og finnst lífið vera að breytast á ógnarhraða. Eins og ég hafi búið í einhverjum helli og sé að koma út til að skoða lífið í fyrsta sinn, kannski næstum því fyrsta sinn, því í kringum tvítugt átti ég nokkur villt ár.

Smá um hjónabandið, ég held að það gæti skipt máli: Við vorum skotin sem unglingar og þekktumst í skóla. Hittumst aftur skömmu eftir tvítugt og byrjuðum saman - ég hafði aldrei fengið fullnægingu sjálf en hann var líklega venjulegur gaur sem stundaði sjálfsfróun tvisvar á dag. Þetta var líklega frekar dæmigert, ég varð ólétt fljótlega, hann menntaði sig og ég aðeins síðar. Börnin urðu þrjú og svo sem ekkert vesen með þau.

Við vorum alltaf ágætis vinir en ég get ekki sagt að kynlífið okkar hafi nokkurn tíma náð almennilegu flugi. Ég ákvað um 25 ára aldurinn að taka ábyrgð og lærði að fróa mér - það var mitt einkaverkefni og hann tók ekki þátt. Ég fékk það mjög sjaldan í okkar sameiginlega kynlífi en stundaði sjálfsfróun í einrúmi allt að því daglega, en mánaðarlega þegar minnst var. Ég hef alltaf haft óra um ýmislegt sem gæti líklega ekki talist til eðlilegs kynlífs, bindingar, flengingar og þannig hluti, en ég hélt þeim fyrir mig því ég hugsa að maðurinn minn hefði hreinlega ekki þolað að heyra um þá.

Hann hefur alltaf verið ótrúlega hefðbundinn, vinnur í jakkafötum, elskar kjötsúpu og slátur og vill hafa samfarir í trúboðastellingunni með ljósin slökkt (þessu orðalagi stal ég frá þér Ragga, en svona var hann og er). Þetta hefur eflaust ekki styrkt okkar samband, enda uxum við í sundur og þegar síðasta barnið flutti að heiman sáum við að skilnaður væri raunhæfur kostur. Þetta var fyrir einu og hálfu ári.

Fyrstu mánuðirnir fóru í að koma mér fyrir á nýjum stað, en í lok fyrsta ársins skráði ég mig á Einkamál. Sú reynsla var ekki beinlínis uppörvandi, skilaboðum rigndi svo sem inn, en aðallega frá karlmönnum sem vildu sýna mér liminn á sér eða greiða mér fyrir kynlíf. Ekki alveg minn tebolli, svo ég fékk mér Tinder í símann, eftir mikla hvatningu tveggja vinkvenna. Það hefur verið mun skárra, enda eru menn þar yfirleitt með myndir og geta ekki einu sinni sent kynfæramyndir gegnum appið þó eflaust væru einhverjir til í það.

Til að gera langa sögu stutta þá er ég búin að hitta mann sem ég er mjög til í að sofa hjá. Hann er fyndinn og skemmtilegur og við erum búin að hittast þrisvar í kaffi og kvöldverð. Núna finn ég samt stressið hellast yfir mig og stend sjálfa mig að því að ætla að steinhalda kjafti yfir órum mínum um að hann bindi mig fasta við rúm, bindi fyrir augun á mér og flengi mig duglega áður en hann tekur mig frekar harkalega.

Úff, það er smá erfitt meira að segja að skrifa þetta. Þú sérð kannski núna hvar ég er stödd. Mig langar en ég hef aldrei opnað mig og er drulluhrædd um að hann muni dæma mig sem einhvern pervert og hafna mér. Ég er samt að streitast á móti því það síðasta sem ég vil er annað langtímasamband þar sem þessir hlutir eru ósagðir. Hvað á ég að gera?

Með fyrirfram þökkum um svar, Birna

Elsku Birna

Þú ert ekki óeðlileg og þú ert ekki pervert - svo við höfum það á hreinu! Það sem fólk kýs að gera saman í kynlífi og er gert með samþykki allra aðila er hluti af heilbrigðu kynlíf og kyntjáningu. Samþykki er töfraorði!

Þetta er nýja lífið þitt og það er ENGIN ástæða til að endurtaka mistökin úr því síðasta. Kynferðisleg þögn milli para er skelfilegur hlutur - kannski ekki skelfilegur eins og járbrautarslys eða að lenda undir píanói úti á götu - frekar eins og að ganga um heilan áratug í skóm sem eru of þröngir, hælsærið fær aldrei að jafna sig og það endar með sýkingu og svo þarf að fjarlægja hælinn. Úff!

Þú ert á dásamlegum aldri - aldrinum þar sem þú ert eflaust búin að gera þér grein fyrir að þú átt vonandi 20 eða 30 góð ár eftir, en skilur líka hverfulleikann - þetta gæti allt endað á morgun ef þú færð loftstein í hausinn í Bankastrætinu. Hver hrukka er tilefni til að skála í Prosecco, hver millimetri sem brjóstin síga er sigur, og hver einasti dagur dásamleg gjöf.

Spáðu aðeins í hvað gæti gerst ef þú ákveður að stíga inn í sannleikann og hafa hann að leiðarljósi í næsta sambandi (sambandi segi ég og á þá við næstu tengingu sem þú nærð við einstakling andlega/kynferðislega hvort sem um verður að ræða þriggja stunda sælu eða samband sem endar þegar annað ykkar deyr). Ég sé þrjá möguleika:

  1. Hann kann að meta að þú treystir honum fyrir órum þínum og löngunum. Hann er sjálfur reyndur í Shibari bindingum (flettu því upp ef þú þekkir ekki hugtakið), og er einmitt búinn að vera að leita að konu sem er til í sjóðheitt en jafnframt innihaldsríkt bindinga- og tilfinningasamband með honum.

  2. Hann kann að meta að þú treystir honum fyrir órum þínum og löngunum. Hann er óreyndur á sviðinu en finnst spennandi að skoða möguleikana með þér.

  3. Hann hneykslast/verður hræddur/óöruggur þegar þú treystir honum fyrir órum þínum og löngunum. Hann er greinilega ekki til í þetta. Hann stingur fingrum í eyrun og byrjar að syngja Óla prik mjög hátt - svo hleypur hann út af kaffihúsinu og gleymir að borga.

Ef svo ólíklega vill til að númer 3 verði niðurstaðan er líka eins gott að þú opnaðir þig. Mundirðu virkilega vilja eyða tíma þínum í mann sem væri ekki einu sinni til í að spá í þessa hluti með þér. Ég held nefnilega ekki!

Vonandi hjálpar þetta eitthvað mín kæra. Til hamingju með nýja lífið og áfram konur með eðlilega óra og þarfir!

Ragga

#spurning #fant #bindingar #kona

 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com