Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Tíðahvörf

Hugtakið eitt og sér á það til að framkalla kalt vatn milli skinns og hörunds hjá konum á besta aldri sem láta sér nú ekki margt fyrir brjósti brenna… Tíðahvörf! Þegar líffræðilega klukkan glymur og kvenlíkaminn segir upp hlutverki sínu sem mögulegt hylki utan um nýjan einstakling. Óttinn við tíðahvörf var líklega meiri þegar hlutverk kvenna í tilverunni takmarkaðist að miklu leyti við einmitt þetta - viðhald mannkyns. Kona úr barneign, eða ófrjó kona, var alls ekki eins verðmæt „eign“ þar sem hún gat ekki staðið undir framleiðslu frekara vinnuafls. Kaldranaleg og vissulega einfölduð sýn á fortíðina, en engu að síður raunsæ.

Í dag er öldin önnur og konur hér á norðurhjara hafa náð að leiðrétta stöðu sína að miklu leyti - við stöndum núna með tærnar örlítið framar þeim stað þar sem íslenskir karlar hafa hælana. Þó ætti öllum að vera ljóst að á heimsvísu er staða kvenna almennt mun verri.

Lífslíkur Íslendinga eru með þeim hæstu í heiminum og meðalaldur kvenna tæp 84 ár. Þetta þýðir að þriðjungur ævinnar er eftir þegar íslenskar konur ganga gegnum tíðahvörf.

Tíðahvörf er tímabilið þegar einstaklingur með leg og eggjastokka (venjulega kona) hættir að hafa egglos og blæðingar vegna breytinga á framleiðslu kvenhormóna í líkamanum. Hjá flestum konum gerist þetta á áratugnum kringum fimmtugt - þó er alls ekki óalgengt að einkenni tíðahvarfa komi fram nokkru fyrr.

Þegar framleiðsla eggjastokkanna á hormóninu estrógen minnkar

Tíminn fyrir tíðahvörf er oft kallaður breytingaskeið - skeiðið þegar líkamlegar breytingar byrja að gera vart við sig. Tímabilið getur verið frá nokkrum mánuðum upp í áratug og einkennin komið og farið. Í rannsóknum á stórum hópum kvenna hefur komið í ljós að þær sem reykja fara að jafnaði tveimur árum fyrr inn í þetta tímabil.

Á breytingaskeiðinu verða oftast miklar, en mjög einstaklingsbundnar breytingar á blæðingum konunnar. Tíðahringurinn getur lengst, eða orðið styttra á milli blæðinga. Blæðingar geta orðið óvenju litlar, eða óvenju miklar. Ef kona er á aldrinum 45-55 ára, er ekki ólétt, ekki alvarlega veik og hefur ekki farið á túr í ár, er nokkuð öruggt að tíðahvörf eru hafin. Tíðahvörf eru hluti af lífsskeiði hverrar konu og gerast náttúrulega á framangreindum aldri. Undantekningar eru þó til, og einnig að snemm tíðahvörf eigi sér stað vegna sjúkdóma eða meðferða við þeim. Ef fjarlægja þarf eggjastokka, til að mynda vegna krabbameins, eða ef kona þarf að gangast undir geisla- eða krabbameinslyfjameðferð, verða tíðahvörf óháð aldri hennar.

Fyrir utan blæðingaflippið eru hitaköst algengustu einkennin sem konur finna fyrir. Skyndilega finnur kona að hún er að bráðna úr hita… alveg upp úr þurru. Tilfinningin er jafn óviðráðanleg og hún er skyndileg - og já, hér skrifar kona af reynslu. Hitaköst endast venjulega aðeins nokkrar mínútur og þau geta komið allt frá því nokkrum sinnum í mánuði upp í nokkrum sinnum á dag. Ekki er vitað nákvæmlega hvers vegna hitaköstin koma en meirihluti þeirra sem ganga gegnum tíðahvörf upplifa þau á einhverju tímabili. Hitatilfinningin takmarkast oftast við handleggi, bringu og höfuð, og sviti getur fylgt.

Önnur einkenni sem geta gert vart við sig á breytingaskeiðinu eru nætursviti, svefntruflanir, þurrkur í leggöngum, aukin tíðni þvagfærasýkinga og skapsveiflur eða breytingar á geðslagi.

Þetta hljómar ekkert voðalega sexí og atriðin sem lýst er hér að framan geta haft mikil áhrif á lífsgæði kvenna á besta aldri. Það er nefnilega hægt að gera ýmislegt til að milda einkennin.

Hér eru nokkur ráð við hitaköstum:

  • Stundaðu reglulega hreyfingu

  • Haltu líkamsþyngdinni í þokkalegum skefjum (rannsóknir hafa sýnt að einkenni eru verri hjá konum með líkamsþyngdarstuðul hærri en 27)

  • Ekki reykja

  • Stundaðu hugleiðslu, núvitund eða annað sem vinnur gegn streitu

  • Vertu í fötum sem þú getur auðveldlega fækkað þegar hitaköstin koma (nokkrum þynnri flíkum í stað lopapeysu beint yfir brjóstahaldarann)

  • Forðastu neyslu ákveðinna fæðutegunda sem þekktar eru fyrir að ýfa upp hitaköst (áfengi, sterkkryddaður matur, heitir drykkir og koffín)

  • Kældu umhverfið með því að opna glugga - sér í lagi í svefnherbergi

Einnig getur verið gagnlegt að halda skrá yfir hitaköstin til að komast að því hvort þau sækja að við sérstakar aðstæður. Notaðu þá fyrir alla muni fallega dagbók og lekkeran penna! (það minnkar ekki köstin, en er bara miklu skemmtilegra)

Ef ofangreind ráð duga ekki og þú ert að bilast er sjálfsagt mál að leita annarra leiða. Hjá grasalæknum er ýmislegt að finna, í venjulegum apótekum má fá sérhönnuð bætiefni án lyfseðils og svo er hægt að leita til heimilislæknis sem getur skrifað upp á hormónemeðferð.

Ef svefninn er slæmur og lundarfar þungt er sérstök ástæða til að leita allra leiða til úrbóta.

Kynlífið

Áhrif tíðahvarfa á kynlíf og kynfæri geta verið mikil. Á frjósemistímabili kvenna er það estrógen sem heldur slímhúðum kynfæranna mjúkum og teygjanlegum, sýrustigi réttu og tryggir framleiðslu náttúrulegrar bleytu legganganna. Þegar framleiðsla estrógens dvín verður slímhúðin þynnri og þurrari, framleiðsla bleytu minnkar og breytt sýrustig getur ýtt undir sýkingar bæði í leggöngum og þvagrás. Allt þetta getur valdið óþægindum og sársauka við samfarir og annað píkumiðað kynlíf.

Minnkuð framleiðsla hormóna og áhrifin á píkuna gera það að verkum að margar konur upplifa minni áhuga á kynlífi við tíðahvörf. Fyrir aðrar er þetta tímabil lífsins uppfullt af nautnamöguleikum - einmitt vegna þess að hættan á þungun er ekki lengur fyrir hendi. Hér ber þó að geta þess að kona getur verið frjó þó að tíðahvörf séu hafin - það er kannski mun lengra á milli egglosa, en þau geta þó átt sér stað og endað með frjóvgun eggs við réttar aðstæður.

Þegar breytingar verða á slímhúð og bleytu í leggöngum er um að gera að stunda sjálfsfróun og/eða annað kynlíf til að viðhalda virkni píkunnar. Sleipiefni má kaupa víða, kókosolíu má sækja inn í eldhús eða nuddolíu í náttborðsskúffuna. Sjálfsfróun og fullnægingar hvetja blóðflæði á svæðinu, og það er ein undirstaða heilbrigðra vefja.

Á þessum tíma verður ef til vill mikilvægara en áður að gefa sér tíma í kynlífið. Losti og kynferðisleg spenna vekur náttúrulega framleiðslu bleytu í leghálsi, leggöngum og kirlum við leggangaopið - en það tekur kannski lengri tíma á breytingaskeiðinu.

Vertu umfram allt dugleg að gera grindarbotnsæfingar. Með þeim styrkirðu vöðvana sem halda líffærum grindarbotnsins á sínum stað, minnkar þvagleka og bætir fullnægingar - en æfingarnar örva líka blóðflæðið og það er forsendan - manstu!

Ef þú átt maka eða kynlífsfélaga er líka um að gera að ræða málin og halda samskiptum opnum um hvað þú þarft í kynlífinu, og hvernig tíðahvörfin hafa áhrif á það sem þú þarft einmitt núna.

Spjallaðu líka við aðra einstaklinga með leg sem gætu verið að ganga í gegnum það sama - ekki vanmeta trúnó og góð ráð frá umhverfinu!


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com