Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Kynlífsklúbbur í Póllandi

Hvað gerist þegar 130 pör fara saman í helgarferð til Póllands í kynlífsklúbb? Ég hafði lengi velt þessu fyrir mér og ákvað þess vegna að skella mér í slíka ferð þegar færi gafst síðasta vetur. Viðkvæmir lesendur ætti að hætta lestri greinarinnar tafarlaust því þetta verður dálítið dónó á köflum.

Ferðin var skipulögð af norsku pari sem rekur síðuna lyst-club.no, en hún hýsir staðbundinn samfélagsvef norrænna swingara. Árlega standa þau fyrir nokkrum ferðum á klúbba víðs vegar um Evrópu, og öðrum viðburðum eins og hinu árlega jólaswingi.

Ég slóst í hóp rúmlega 10 Íslendinga sem höfðu ákveðið að fara til Póllands, en nokkur paranna höfðu farið áður í ferðir skipulagðar af Lyst-club og létu vel af. Hópurinn þekktist að einhverju leyti innbyrðis, enda swingsenan á Íslandi agnarlítil og náin - nýliðum, eins og mér, var tekið opnum örmum. Í hópnum voru meðal annars Einar og Ásta (dulnefni) sem hafa áður birst í greinum mínum um ferð í klúbbinn Fata Morgana í Amsterdam.

Yfirtaka á hóteli

Við tékkuðum okkur inn á huggulegt hótel í miðborg Gdansk á fimmtudegi, en allur hópurinn dvaldi á sama stað - það er hluti af stemmningunni. Strax um kvöldið var ljóst að 260 swingarar mundu setja mark sitt á staðinn þessa helgi. Án þess að hafa gert nákvæma athugun mundi ég skjóta á að meðalaldur í hópnum hafi verið um 40 ár, en mér virtust flestir á aldrinum 30-55. Ég er oft spurð hvernig fólk sé í swingi, en ótrúlega margir virðast óttast að fegurðarskyni þeirra yrði mögulega misboðið í slíkum félagsskap. Það er þó fjarri sanni því swingarar eru ósköp venjulegt fólk af öllum stærðum og gerðum og yfir það heila bara asskoti myndarlegt. Það sem gerir swingara skemmtilega er þó umfram annað orkan, brosin, jákvæðnin og frelsið. Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé, og eftir að hafa upplifað nokkrar samkomur með swingurum hef ég þurft að beita grjóthörðu neitunarvaldi oftar en einu sinni, en almennt séð er fólk kurteist, glatt og viðkunnalegt. Það skiptir nefnilega miklu máli í samhenginu að kynna sér reglur um hegðun og atferli. Þeir sem verða uppvísir að dólgshætti eða ókurteisi eiga á hættu brottvísun úr klúbbum eða samkomum, og fá fljótt á sig slæmt orð.

Klúbbur á Kjalarnesi

Þrjú næstu kvöld var farið í Jaccuzi-club sem er eiginlega úti í sveit fyrir utan Gdansk - sirka á Kjalarnesi. Búið var að semja við sérstaka leigubíla til að selflytja hópinn, því hinn almenni grandvari pólski leigubílstjóri var ekki líklegur til að rata. Ferðin tók um 20 mínútur gegnum skóglendi, framhjá ökrum og loks upp malarveg sem endaði á stað sem hefði allt eins geta verið holdanautabú… þar til komið var að fordyrinu þar sem kátir norðurlandabúar fylltu hvern krók og kima með hlátrarsköllum, daðri og dufli.

Þetta var dálítið eins og að fara í sund, hver og einn þurfti að skrá sig inn og fá lykil í móttökunni, en fyrir heimsóknina höfðu allir sent tölvupóst á staðinn og fengið til baka blessunarpóst með númeri. Næsta stopp voru búningsklefarnir þar sem hægt var að skilja eftir síma og önnur verðmæti, og auðvitað skipta um föt. „Í hverju er maður eiginlega,“ er önnur spurning sem ég fæ oft um swingklúbba frá spenntu fólki. Klæðnaður er hvergi nærri borgaralegur, heldur efnislítill og lostafullur. Konur eru gjarnan í nærfötum, þó ekki sloggi-nærbuxum og íþróttatoppum, frekar blúndum, silki, netasokkum, sokkaböndum, korsettum eða öðru álíka. Karlar eru oftast í þröngum boxer-nærbuxum, stutt skylmingaþrælapils eru líka í tísku, en ég hef líka séð ýmislegt annað eins og netaboli, pungbindi af ýmsum gerðum, og leður- eða latexfatnað.

Konan með ballarbeltið

Þegar komið var inn á klúbbinn leið ekki á löngu þar til ein íslensku kvennanna, sem þekkti til, var búin að draga mig um klúbbinn eins og hann lagði sig og kynna mig fyrir 110 norðmönnum, 80 svíum og 45 dönum - sirka. Það var greinilegt að hún var algjör súperstjarna innan hópsins - klædd í leðurkorsett og opna leðurkápu með ballarbelti um sig miðja. Hún sveif um eins og dálítið hættulegt en ómótstæðilegt fiðrildi og uppskar aðdáun, faðmlög og kossa á milli þess sem hún sýndi mér hvern krók og kima. Síðar um kvöldið sá ég hana hafa djúpar samfarir við konu með ballarbeltinu.

Í klúbbnum eru ýmis rými og ranghalar á nokkrum hæðum og pöllum - en allt hefst á barnum sem gengið er inn á beint úr búningsklefum. Þar byrjar fólk að spjalla og daðra, fær sér kannski drykk, mælir hvert annað út og lætur svo vaða ef losti og langanir falla saman eins og flís við rass. Á svona stað er styttra í opinskátt kynlífstal, enda flestir þangað mættir í sama tilganginum - að stunda kynlíf. Þó skal tekið fram að það er engin skylda að stunda kynlíf, það má hreinlega mæta til að velta sér upp úr kynorkunni sem skapast, horfa á aðra, eða kela við þann sem kona mætir með á staðinn.

Ekki fyrir viðkvæma

Það mundi æra óstöðugan að útlista allt það sem ég varð vitni að þessi þrjú kvöld á pólska kynlífsklúbbnum, svo hér verður stiklað á stóru:

Sena 1: Lítið herbergi sem er útbúið eins og stofa kvensjúkdómalæknis. Kona liggur í skoðunarstólnum og karlmaður krýpur milli fóta hennar og veitir henni öflugar munngælur. Annar karlmaður stendur við höfðagaflinn og nuddar brjóst konunnar.

Sena 2: Stórt herbergi með risastóru rúmi. Sirka 5 pör liggja þar og njótast. Einn íslensku karlmannanna í hópnum hafði þetta að segja: „Það er eitthvað ótrúlega magnað við að ríða á meðal annarra sem eru líka að ríða. Þó að ég og konan mín séum bara hvort með öðru magnar þetta upp reynsluna og er ótrúlega sexý. Stundum lýsi ég því sem ég sé gerast í herberginu og það gerir hana spólgraða.“

Sena 3: Munið þið eftir kvikmyndinni Eyes wide shut? Í Jacuzzi-club er herbergi þar sem reynt er að líkja eftir orgíustemmningunni sem sýnd var þar. Í fordyri herbergisins eru silkiskikkjur og grímur fyrir þá sem vilja, en í herberginu sjálfu er risastórt hringlaga svart rúm og kringum það þægilegir sófar. Birtan er dauf og tónlistin dramatísk. Rúmið er þakið bleikum rósablöðum og ilmurinn er eftir því. Á rósabeðinu er slatti af fólki í leik og í kring sitja aðrir og njóta þess að horfa.

Sena 4: Sama herbergi og í síðustu senu, annað kvöld. Nú eru rósirnar víðs fjarri, en í staðinn stendur starfsfólk með stórar könnur fullar af heitri og þykkri Nuru-olíu og hellir á holdhrúguna sem iðar í rúminu. Þeir sem taka þátt í rúminu þurfa að vera kviknaktir - aðrir sitja í sófum og horfa á.

Sena 5: Kjallarinn er dýflyssa með bindingabekkjum, keðjum, krossum og ýmsu sem hentar til BDSM leikja. Par hefur boðið konu með sér í leik. Karl stendur í rúmi upp við vegg, hendur útréttar og festar upp á vegginn með keðjum. Kona krýpur fyrir framan hann og veitir honum munngælur á meðan önnur kona hvetur hana til dáða.

Sena 6: Við erum ennþá stödd í kjallaranum. Kona liggur á fjórum fótum á flengingabekk. Karl stendur við höfðagaflinn með liminn uppi í henni. Annar karl stendur við afturendann og flengir og strýkur á víxl. Kona krýpur við hlið hennar og gælir við brjóst með munni sínum.

Já krakkar mínir! Svona er nú fjörið í Jacuzzi. Oft hef ég verið ásökuð um að uppdikta sögurnar sem ég segi í greinum mínum - en almáttugur hvað ætli gerist núna?


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com