Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Afbrýðisemi í samböndum

Við þekkjum öll þessa tilfinningu - stundum er hún nagandi, stundum suðandi, stundum kæfandi og stundum óbærileg. Afbrýðisemi hefur einhvern kraft sem við getum á köflum upplifað ósigranlegan. Hún getur eitrað sambönd við þá sem við elskum, sáð fræjum tortryggni og kvíða, og fest okkur í slímugu neti höfnunaróttans. En það er ýmislegt sem má gera - við berum nefnilega sjálf ábyrgð á tilfinningum okkar og úrvinnslu þeirra.

Öfund er orð sem við notum dálítið svipað og afbrýðisemi - hér mun ég þó halda mig við það síðarnefnda, enda lít ég á að orðið öfund lýsi frekar ásælni okkar í hluti í eigu annarra eða jafnvel stöðu sem þeir gegna eða eiginleika sem þeir búa yfir. Þetta má bera saman við ensku hugtökin jealousy og envy. Þú öfundar vinkonu þína af nýju eldhúsinnréttingunni og tímanum hennar í síðasta Reykjavíkurmaraþoni, en fannst fyrir afbrýðisemi þegar hún reyndi vandræðalega mikið við manninn þinn eftir aðeins of mörg hvítvínsglös í síðasta matarboði.

En hvernig eigum við að skilgreina afbrýðisemi? Margir hafa gert atlögu að tilfinningunni, sem kannski væri betra að lýsa sem tilfinningaknippi. Orðabækur, ljóðskáld og fræðafólk hefur gert ýmsar atlögur og við höfum öll, eða langflest, upplifað afbrýðisemi þó að við eigum misauðvelt með að útskýra hana eða greina frekar. Við þekkjum í það minnsta smettið á henni þegar hún birtist.

Stingur í maga eða morð

Í nánum samböndum kemur afbrýðisemi upp þegar við upplifum að stöðu okkar sé ógnað á einhvern hátt, sérstaklega þegar við óttumst að missa einstaklinginn sem er okkur mikilvægur. Það gildir þá einu hvort óttinn er á rökum reistur eða ekki - tilfinningin getur verið sú sama. Hugmyndir um eignarhald, stöðu kynjanna, hvernig „eðlileg“ sambönd eiga að vera og traust milli aðila þess.

Afbrýðisemi birtist á misjafnan hátt hjá einstaklingum og getur verið allt frá því sem sumir vilja kalla heilbrigða afbrýðisemi, yfir í að vera skaðleg og jafnvel hættuleg. Það er stór munur á því að fá sting í magann þegar þokkafullur piltur blikkar stúlkuna þína og að myrða hana með hníf því þú ert með á heilanum að hún eigi í leynilegu sambandi við hann - í báðum tilfellum er þó um afbrýðisemi að ræða.

Við vitum að framhjáhald er stórmál hjá flestum. Í greiningu á gögnum frá 16 mismunandi samfélögum kom í ljós að framhjáhald var algengasta ástæða skilnaða í þeim öllum. Greining á 50 rannsóknum á framhjáhaldi meðal fólks í hjónabandi leiddi í ljós að 34% karla og 24% kvenna sögðust hafa haldið framhjá á einhverjum tímapunkti. Talið er að þessar tölur séu ennþá hærri meðal fólks í samböndum sem eru ekki hjónabönd.

Stærsta framhjáhaldsrannsókn sem gerð hefur verið til þessa kom út í fræðiritinu Archives of Sexual Behaviour 2014. Í henni tóku þátt tæplega 64000 einstaklingar, konur og karlar, gagnkynhneigðir, tvíkynhneigðir, hommar og lesbíur, á aldrinum 18-64 ára. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort munur væri á því hvernig fólk af ólíkum kynjum og kynhneigð upplifði kynferðislegt eða tilfinningalegt framhjáhald - hversu miklu uppnámi tilhugsunin ylli. Þess ber að geta að rannsóknin sem um ræðir er bandarísk.

Þátttakendur voru beðnir um að ímynda sér það uppnám sem þeir kæmust í ef maki þeirra héldi framhjá - annars vegar með því að stunda kynlíf með annarri manneskju (án tilfinninga) og hins vegar með því að mynda sterk tilfinngaleg tengsl, jafnvel verða ástfangin/n (án kynlífs.). Rannsóknartilgátan var í takt við það sem þróunarsálfræðingar og fleiri aðhyllast, um að gagnkynhneigðir karlmenn væru viðkvæmari fyrir kynferðislega framhjáhaldinu, en konur fyrir því tilfinningalegra.

Stingur í maga eða morð?

Örlítið um sjónarhorn þróunarkenninga: samkvæmt þeim standa karlmenn frammi fyrir afskaplega sérstöku vandamáli sem konur upplifa aldrei - hinni nagandi óvissu um faðerni afkvæma - og ÞESS VEGNA eru þeir líklegri til að bregðast harðar við kynferðislegu framhjáhaldi. Móðerni barna verður hins vegar seint dregið í efa. Konurnar þurfa hins vegar vernd og vilja ekki láta yfirgefa sig, þær eru veikara kynið og þurfa að reiða sig á karlmanninn til að draga björg í bú.

Þarna langar mig aðeins að staldra við því svona forsendur geta verið varasamar og eru alls ekki að vera algildar. Í mannfræðinni hafa ýmis samfélög verið skoðuð þar sem faðerni barna skiptir engu máli - börn eru bara gjöf og hópurinn hugsar um þau óháð genasamsetningu.

Hugmyndin um hið rétta faðerni afkvæmisins tengist eignarhaldinu - hver Á konuna og hver Á RÉTT á því að frjóvga hana.

Hugmyndir um þörf kvenna fyrir vernd tengjast svo stöðu kvenna í heiminum, og að einhverju leyti líkamlegum styrk, að minnsta kosti á þeim tíma sem erfitt var að afla sér matar og stórhættuleg rándýr gátu lúrt bak við næsta klett. Þá var mikilvægt fyrir konuna að hafa stæltan karlmann sér við hlið sem að auki var nætilega hugrakkur til að hætta sér út fyrir hellismunnann til að þræða eina gazellu eða tvær upp á spjótið sitt. Í dag snýst þetta bara um hugmyndir okkar um vald og raunverulega dreifingu þess.

Glæpahneigð og húðlitur

Ég leitaði til fræðakonu sem er mér fróðari um ýmiss konar rannsóknaraðferðir og túlkun niðurstaðna. Hún fræddi mig um hættulegar hliðar þess að gefa sér forsendur um einhvers konar sannleika og hvernig það er ákveðið vandamál sem við rekumst á ítrekað í samfélaginu. Við viljum að veruleikinn sé sanngjarn og að það sem við höldum og upplifum sé satt. Ímyndum okkur bandarískan rannsakanda sem er uppfullur af rasískum hugmyndum um að dekkri húðlitur hafi í för með sér glæpahneigð - að einhvers konar glæpagen sé að finna hjá Bandaríkjamönnum af afrískum eða Suður-amerískum uppruna. Við vitum að þetta er rugl - en hann þráast við og gerir rannsókn sem staðfestir þetta að sjálfsögðu. Það sem liggur að baki er þó engin genetík - heldur dreifing valds og auðs í samfélaginu sem fólkið lifir.

Við getum líka leitt hugann að fyrirbærinu „ástríðuglæpur“ þar sem alvarlegt ofbeldi eða jafnvel morð er réttlætt þar sem gerandi hafi verið blindaður af ást og drepið grey konuna þess vegna. Hann „átti“ þessa konu… kannski mátti hann þetta smá?!

Hugtök sem þessi verða til vegna hugmynda okkar um eignarhald, sér í lagi á maka. Menningin mótar okkur, bæði hvað varðar hegðun og hugsun. Konur eru lægra settar í heiminum - en það er ekki út af neinu nema menningunni. Við vitum í dag að það er enginn munur á vitsmunum ólíkra kynja, frekar en að það sé munur á genetískri hneigð fólks til glæpa út frá húðlit.

Ekkert diss, bara pælingar

Ég vil samt síst dissa Dr. Frederick og félaga hjá Chapman háskóla. Í rannsóknargreininni er tekið fram að samfélagið mótar karlmenn og hvetur til hefðbundinnar „karlmennsku“. Þeir eiga að búa yfir kynferðislegum krafti og aðdráttarafli, og sé kona hans kynferðislega ótrú með öðrum manni setur það spurningamerki við þessa eiginleika og þar með karlmennsku hans.

Konum er á hinn bóginn innrætt að leggja mikið upp úr djúpum tengslum og að taka á sig hlutverk hinnar tilfinningalega nærandi, alltumlykjandi og hlýju móður (sem er samt sexí).

Kynlíf og tilfinningar

En aftur að rannsókninni. Niðurstöður leiddu í ljós að gagnkynhneigðir karlmenn voru líklegri en gagnkynhneigðar konur til að komast í uppnám af tilhugsuninni um kynferðislegt framhjáhald (54% karla á móti 35% kvenna), og síður líklegri en konurnar til að láta tilhugsun um tilfinningalegt framhjáhald koma sér úr jafnvægi (46% karla á móti 65% kvenna). Þetta staðfestir þróunarkenningasjónarhornið sem rannsakendur notuðu til grundvallar. Á milli hinna hópanna, þ.e. tvíkynhneigðra karla og kvenna annars vegar, og homma og lesbía hins vegar reyndist ekki tölfræðilega marktækur munur.

Rannsóknin sem fjallað er um: David A. Frederick, Melissa R. Fales. Upset Over Sexual versus Emotional Infidelity Among Gay, Lesbian, Bisexual, and Heterosexual Adults. Archives of Sexual Behavior, 2014


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com