Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Fullnægingar kvenna

Hvað er málið með fullnægingar kvenna? Þær eru algjör óþarfi í raun - þær eru ekki nauðsynlegar til að viðhalda mannkyninu hvað þá til að halda kvenkyns lífverum á lífi. Eða hvað?

Fullnæging er viðbragð ósjálfráða taugakerfisins. Það er sá hluti taugakerfis okkar sem sér um alls konar hluti sem gerast í líkamanum en við stjórnum ekki, til dæmis hjartslátt, meltingu, öndun og einmitt kynferðislega örvun. Þegar kynnæm svæði eru örvuð berast skilaboð til heilans og þegar þau ná ákveðnu marki er eins og stífla losni og taugaboð berast til grindarholsins þar sem ósjálfráður taktfastur samdráttur sléttra vöðvafruma framkallar nautnina sem við köllum fullnægingu. Ósjálfráðir vöðvakrampar verða víðar í líkamanum og nautnastunur geta læðst fram af vörum án þess að við fáum við það ráðið. Að auki fáum við góðar gusur af hormónum sem vekja vellíðan í líkamanum - oxýtósín, prólaktín og endorfín mynda hina heilögu nautnaþrennu.

Þegar fullnæging er á næsta leyti veldur vaxandi spennustig líkamans hraðari hjartslætti, aukinni öndunartíðni, breytingum á blóðþrýstingi þar til örvunin verður nægilega mikil.

Algengast er að konur framkalli fullnægingu með örvun á sníp, sjálfar, með titrara eða með hjálp annars aðila. 70-80% kvenna þurfa markvissa örvun snípsins til að fá fullnægingu. Reyndar ber að halda því til haga að snípurinn er mun stærra líffæri en litla dyrabjallan á yfirborðinu gefur til kynna. Stinningarvefur hans undir yfirborðinu teygir sig niður með innri börmunum og inn í grindarholið. Þess vegna er snípurinn líka með við annars konar örvun píkunnar eða legganganna. Það stenst þess vegna ekki skoðun að skilja á milli legganga og snípsfullnæginga.

Það liggur beinast við að framkalla fullnægingu með því að örva kynfærin… það kunnum við sem betur fer flest. Karlmenn strjúka lim sinn upp og niður og konur nudda snípinn - hér um bil þannig framköllum við fullnægingu hjá okkur sjálfum og iðjan kallast sjálfsfróun. En það er líka hægt með öðrum leiðum. Kynfræðingurinn og brautryðjandinn Alfred Kinsey og starfslið hans notaði aldarfjórðung á árunum 1938-1963 í að taka ítarleg viðtöl við 18000 einstaklinga um kynlíf þeirra. Meðal þeirra var kona sem gat fengið fullnægingu við það að láta strjúka á sér augabrúnina. Það er ekki algengt!

Konur geta fengið fullnægingar eftir ýmsum öðrum leiðum en beinni örvun kynfæranna, og það er kannski algengara en flesta grunar. Líkamsrækt, djúpir kossar, lostafullar hugsanir og örvun á geirvörtum geta framkallað fullnægingar hjá hluta kvenna - svo fátt eitt sé nefnt. Hjá konum sem verða fyrir mænuskaða er vel þekkt að svæðið rétt ofan við skaðann verði mjög næmt og gælur á því geti framkallað fullnægingar.

Vísindafólk hefur velt fyrir sér tilgangi fullnæginga gegnum tíðina. Við vitum í dag að kona getur gengið með og eignast 10 börn án þess að fá svo mikið sem staka fullnægingu.

Á tímum Hippókratesar var fullnægingin talin nauðsynleg fyrir frjóvgun og því var brýnt fyrir karlmönnum að huga að kynferðislegri nautn kvenna sinna.

Snemma á 20. Öld héldu margir kvensjúkdómalæknar að fullnæging konunnar væri hjálpleg vegna þess að leghálsinn sygi upp sæðið og þannig yrði frjóvgun líklegri.

Masters og Johnson voru ekki hrifin af sogkenningunni. Þau káluðu henni í eitt skipti fyrir öll með því að gera ansi snjalla rannsókn þar sem 5 konur mættu á rannsóknarstofuna og fórnuðu sér fyrir málstaðinn. Sæðislíku efni sem innihélt að auki skuggaefni var komið fyrir í leggöngum þeirra - svo örvuðu konurnar sig til fullnægingar og fylgst var með ferðum skuggaefnisins með röntgenmyndavél. Skemmst er frá því að segja að rannsóknin leiddi í ljós að leghálsinn saug skuggaefnið ekki upp við fullnæginguna.

Í ljómandi skemmtilegum Ted-fyrirlestri segir vísindakonan Mary Roach frá kynnum sínum af konu sem fær fullnægingu við að tannbursta sig. Taugasérfræðingur sem rannsakaði konuna komst að því að tegund tannkrems skipti ekki máli, og það dugði ekki heldur að örva góminn með öðrum leiðum… aðeins tannburstun virkaði. Konan varð að lokum þreytt á þessu og skipti yfir í munnskol.

Svona lýsa íslenskar konur fullnægingum sínum

„Bestu fullnægingarnar geta tekið tíma, þarf að sækja þær lengst lengst inní iðrin og þegar hún loks kemur skýst hún í öll horn, fyllir allt, upp í haus og niður í tær.” 48 ára kona

„Þegar ég fór á þunglyndislyf var ég vöruð við að það gæti breytt bæði löngun og upplifun minni af kynlífi og fullnægingum. Ég var heppin því kynlífið mitt varð bara betra. Fullnægingarnar eru mismunandi langar, djúpar, stundum fæ ég raðfullnægingar. Ekki bara hápunktur og svo búið. Núna get ég verið næstum endalaust að. Það er magnað hvað gerist þegar kona fer að kanna hvað getur komið í kjölfar fyrstu fullnægingar - ballið er ekkert búið eftir hana. Næsta getur verið sterkari eða dýpri eða jafnvel fengið þig að „squirta“.“ 40 ára kona

„Fullnægingarnar mínar eru mjög mismunandi. Ég fæ það mjög auðveldlega en þær bestu koma þegar ég held aftur af mér í ákveðinn tíma. Þegar ég stunda kynlíf með karlmanni er ég vön að fá það mörgum sinnum. Fyrsta fullnægingin kemur oftast við örvun á snípnum en svo geta þær komið á mismunandi hátt. Tilfinningin er eins og rafmagn um líkamann. Stundum takmarkað við píkuna og miðsvæðið, en þær stóru ná alveg upp í haus, fram í fingurgóma og niður í tær. Lengdin er líka misjöfn og eftirköstin. Oh það er svo gaman að fá það!“ Kona 38 ára

„Ég man þegar ég fékk mína fyrstu fullnægingu við samfarir, ég var örugglega um 31árs. Ég man það svona vel vegna þess að tilfinningin var engu lík og ég hugsaði með mér á því augnabliki „vá ég hef greinilega ekki fengið fullnægingu áður”. Mér leið pínu eins og ég þyrfti að pissa en í stað þess að halda í mér leyfði ég þessu bara að gerast og viti menn, ÞETTA VAR ÞÁ FULLNÆGING. Vá hvað þetta var gott. Þetta tekst ekki oft en þegar það gerist þá er það hreinlega unaðslegt.“ 39 ára kona

„Mér finnast bestu fullnægingarnar vera þegar eitthvað daður hefur verið í gangi milli mín og mannsins mína, jafnvel að við skiptumst á fantasíum. Þá er maður orðin svo æstur þegar kemur að kynlífinu. Mér finnst eiginlega best að vera með honum (þó ég hafi gaman af því að vera með öðru fólki) því hann þekkir mig svo vel… les mig eiginlega. Fylgist með öllum viðbrögðum hjá mér. Hvernig ég bregst við ef hann snertir mig hér eða þar og veit alltaf um leið og ég hvað ég vil. Yfirleitt fæ ég bestu fullnægingarnar þegar og við erum náin og vel stemmd og ef hann notar liminn eða hendurnar til að örva g-blett og sníp samtímis, þá verður fullnæging svo djúp. Ég finn hana djúpt í leggöngunum, snípnum og um allann kroppinn… stundum er þetta svo magnað að ég enda fullnægingu á því að fara gráta… ekki af vanlíðan heldur flæðir bara einhvern veginn yfir. Líkamleg örvun í bland við sterkar tilfinningar.“ 52 ára kona

„Ég er langhrifnust af fullnægingum sem elskhugi minn gefur mér með höndunum. Hann er búinn að ná svo góðum tökum á að nudda g-blettinn minn djúpt og innilega. Ég „skvörta“ undantekningarleust þegar hann gerir þetta. Tilfinningin er eins og heit ólgandi sprengja springi í grindarholinu mínu og sendi neista um allan líkamann. Stundum hefur hann sett alla höndina inn í mig og það er engu líkt…“ 49 ára kona


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com