Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Kyndauði - þegar sambönd kólna kynferðislega

„Æ mig langar bara ekki núna,“ segir hún þegar eiginmaðurinn til sjö ára byrjar að nudda kálfana á henni nautnalega í sófanum. Það er eins og líkami hennar stífni við snertinguna, en henni þykir þó svo óendanlega vænt um manninn sem frjóvgaði hana, hjúkraði henni í gegnum síðustu gubbupest og hélt utan um hana öll skiptin sem þurfti það mest. Samt fer hún inn í rúm hálftíma á undan honum og fróar sér. Hana langar bara ekki með honum. Hlutirnir hafa einhvern veginn þróast þannig að þegar hann byrjar að snerta hana veit hún hvað klukkan slær, hann langar í kynlíf, sem í hans huga þýðir samfarir. Atlot, hnoð, kelerí og snerting umfram lágmark heyrir sögunni til. Vítahringur hefur skapast - snerting hans minnir hana óþægilega á hvernig ástandið er orðið, en hana langar bara ekki í hann. Samt er ást, virðing og væntumþykja… og það kann að hljóma einkennilega en hún er alveg jafngröð og vanalega, en kýs kynlíf með sjálfri sér umfram kynlíf með honum í níu af hverjum tíu skiptum.

Í langtímasamböndum er óhjákvæmilegt að lenda í misræmi í kynlöngun. Við sveiflumst öll upp og niður í greddu og þörf fyrir nánd og atlot. Kannski mætti segja að einn af lykilþáttum þess að halda langtímasambandi gangandi sé einmitt að stilla saman strengina og miðla málum á þessu sviði - sérstaklega í einmaka* langtímasamböndum. Þetta kannist þið eflaust við ef þið eigið þannig sambönd að baki. En dæmið í upphafi greinarinnar fjallar um annað fyrirbæri - ekki þetta eðlilega misræmi, hæðir og lægðir, sem við upplifum öll. Í dæminu er akkúrat ekkert að kynlönguninni, hún beinist bara ekki í þá átt sem hún ætti helst að gera - að makanum.

Misgóðar hugmyndir

„Getur maður gert kröfu um að vera fullnægður á öllum sviðum? Ég er eiginlega búin að sætta mig við að þetta verði bara svona því ekki er ég að fara að halda framhjá,“ sagði kona ein sem skrifaði mér tölvupóst um kyndautt hjónaband og leitaði ráða. „Ég er búin að lifa í kynlífslausu sambandi í hálfan áratug. Kynhvötin mín er til staðar og ég stunda sjálfsfróun af og til, en mig langar ekki í kynlíf með manninum mínum. Hans kynhvöt er pottþétt til staðar því mér finnst hann alltaf vera eitthvað að pota í mig. Mér finnst vont bragð af typpinu hans og ég forðast snertingu frá honum. Eins og mér þykir vænt um hann er hann gjörsamlega hættur að kveikja í mér. Ég leyfi mér ekki að hugsa um aðra menn því það er ekki séns að ég ætli að verða konan sem byrjar að halda framhjá. Getur ekki verið að kynlíf sé ofmetið? Mér finnst að minnsta kosti auðveldara að bæla niður minn losta eftir því sem tíminn líður.“

Já stórt er spurt - kannski er þetta alveg hægt, en það má líka segja um ýmsar arfaslæmar hugmyndir. Það er HÆGT að lifa á hrísgrjónum og steiktum lauk í sex mánuði, og það er HÆGT að nota sumarfríið í að lesa alla Ísfólksseríuna. Þetta er hægt, en það er ekki þar með sagt að hugmyndirnar séu góðar.

Ég heyrði aftur frá bréfritara rúmu ári síðar og fékk þær fréttir að hún hefði loksins endað sitt sautján ára samband eftir að kynlífsþurrðin hafði varað í sex ár. Endalokin áttu sér þann aðdraganda að sambýlismaðurinn gafst upp á endalausri höfnuninni og leitaði huggunar í faðmi einhleyprar samstarfskonu. „Ég varð ekki einu sinni reið. Það rann upp fyrir mér að þó að ég hafi ætlað að bæla mínar hvatir og þarfir hafði hann sínar. Auðvitað hlaut að koma að þessu.“ Hún segist sjá stöðuna mun skýrar í baksýnisspeglinum. „Þetta var einhver allsherjar afneitun. Kannski hefðum við getað unnið í okkar málum og náð að finna aftur neistann sem var þó á milli okkar fyrstu tíu árin eða svo. Samt hugsa ég að hvorugt okkar hefði verið til í að finna þerapista og leggja í þá vinnu. Ég er að endurlífga kynveruna sem ég var búin að hlekkja niður innra með mér og það gengur bara vel.“

Sambýlismanninn fyrrverandi hef ég ekki rætt við, en veit að hann hóf samband við hjákonuna, sem stendur ennþá. Vonandi eru atlot hans velkomin, og vonandi kann nýja konan að meta hann allan, líka bragðið af typpinu hans.

Nándin og neistinn

Það er hægt að gera eitthvað í málunum - en best er að fara af stað áður en í óefni er komið líkt og í dæmunum hér að framan. Kynlíf er mikilvæg grunnþörf, og þó svo að hægt sé að lifa án þess verður slíkt meinlætalíf fljótt litlaust og hamlandi (sé kynhvötin til staðar). Nýjabrumið er eldsneytið í upphafi sambanda, en þegar það er horfið þarf annað að koma til. Neistanum verður ekki viðhaldið nema með nánd, og með því að setja hana í forgang. Kannski er í lagi að gefa börnunum fyrst að borða, en nándin verður í það minnsta að lenda ofarlega á listanum, jafnvel ofar en afþurrkun, þvottadagar og Sorpuferðir.

Bókið tíma hjá ráðgjafa ef það gengur illa að tala saman, stundum getur verið nauðsynlegt að hafa túlk. Munið líka að sambandsslit þurfa alls ekki að vera dramatísk eða tákna uppgjöf. Við lifum svo óralengi nú til dags að fyrir mörg okkar er óhugsandi að makast fyrir lífstíð.

Merki um kyndauða

Er mögulegt að sambandið þitt stefni hraðbyr í óhjákvæmilegan kyndauða. Kannastu við eitthvað af neðangreindu?

  • Forðastu að fara í rúmið á sama tíma og makinn til að minnka líkur á að hann hefji atlot?

  • Hefurðu legið og þóst sofa til að koma þér undan atlotum?

  • Stundar þú kynlíf með makanum frekar af skyldurækni en löngun?

  • Lendið þið í rifrildum eða kýtingi um kynlífið - til dæmis um það að annað ykkar eigi aldrei frumkvæði?

  • Áttu auðvelt með að finna afsakanir og skýringar á kynlífsleysi? Til dæmis að börnin séu alltaf heima eða að þú sért orkulaus eftir vinnuna og húsverkin.

*Einmaka er auðmjúk tilraun ykkar einlægrar til að þýða orðið monogamous og forðast á sama tíma notkun orðsins „einkvæni“ sem er bæði karlrembulegt og gamaldags.


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com