Our Recent Posts

Tags

No tags yet.

Kona fer í legnám

Kannski er dálítið dæmigert fyrir heilbrigðisstarfsfólk að láta ýmislegt sem varðar eigin heilsu reka á reiðanum. Við virðumst hugsa betur um flesta aðra en okkur sjálf.

Eins og margar konur fékk ég hormónalykkju setta upp af kvensjúkdómalækninum mínum fyrir nokkrum árum. Hormónalykkjan virkar prýðilega fyrir margar konur, blæðingar verða minni og hormónaáhrifin eru að miklu leyti staðbundin svo að áhrifin á kynhvötina eru ekki eins gríðarlega letjandi og til dæmis af pillunni. Fyrstu tveimur vikunum eyddi ég í miklum ólgusjó tilfinninga - ég man eftir að hafa farið að grenja á kaffihúsi því kanilsnúðarnir voru búnir - en svo komst jafnvægi á lífið og allt gekk vel í nokkur ár. Smám saman sogaði líkami minn gervihormónin úr litla aðskotahlutnum og ég gat haft samfarir að vild óhrædd um óvelkomna þungun.

Engar áhyggjur Þegar hormónamagnið í lykkjunni þverr aukast blæðingar og að lokum þarf að skipta um lykkju. Hjá mér jukust blæðingarnar þó ekkert venjulega, heldur lenti ég í gríðarmiklu blóðflóði nokkrum sinnum áður en önnur lykkja var sett upp. Allt eins og það átti að vera, og þegar lykkja númer tvö var sett á sinn stað hafði kvensjúkdómalæknirinn á orði að þetta væri alveg passlegt því þegar þessi mundi hætta að virka yrði ég líklega komin á breytingaskeið. Húrra fyrir því!

Líkaminn var þó ekki alveg til í þetta plan því haustið 2014, þremur árum eftir innsetningu lykkjunnar, voru blæðingarnar mínar orðnar gersamlega óþolandi aftur. Stærstu túrtapparnir dugðu í kortér, álfabikarinn fylltist á örskotsstundu og ég þurfti að sofa með undirbreiðslur og hrúgu af dömubindum milli fótanna til að rúmdýnan mín ætti séns. Á sama tíma fann ég fyrir einhverri fyrirferð neðarlega í kviðnum - og hún jókst smám saman. Ég var nokkuð magamikil, og ekki í sem allra bestum tengslum við líkama minn á þessum tíma, og ýtti áhyggjum frá mér markvisst. Í krabbameinsskoðunum hafði stundum verið haft orð á því að legið mitt væri í stærra lagi - en líklega þyrfti ég ekki að hafa áhyggjur.

16 vikur Tilfinningin um að eitthvað væri að fór þó vaxandi - eins og æxlið sem reyndist vera í veggnum á leginu mínu - og á endanum hunskaðist ég til kvensjúkdómalæknis. Ég kom inn og sagðist örugglega vera komin með krabbamein og við dauðans dyr. Hún bað mig nú vinsamlega um að leyfa sér að kanna málið áður en dauðadómur yrði kveðinn upp. Ég vippaði mér upp í stólinn, hún setti smokkinn og sleipiefnið á ómskoðunarstautinn og smeygði honum svo inn í leggöngin mín. Viti konur - það sem blasti við á skjánum var hlussuæxli í legveggnum, og tvær grímur runnu á kvensjúkdómalækninn minn góða. „Þetta þurfum við að taka,“ sagði hún alvarlega í bragði - og ég byrjaði að hugsa um óskalög fyrir jarðarförina. Ég fékk að heyra að líklega væri æxlið góðkynja - það voru góðu fréttirnar - en þær slæmu voru að stærðin var slík að legið mitt var orðið á stærð við leg á sextándu viku meðgöngu og það yrði að fjarlægja það með skurðaðgerð. Legnám er oftast framkvæmt um leggöng, þ.e. farið er upp um leggöngin í stað þess að gera gat á kviðvegginn - en mitt leg var orðið allt of stórt til að hægt yrði að komast upp með það. Hún sagði að það væri að sjálfsögðu biðlisti í aðgerðina, en að hún skyldi setja nafnið mitt tafarlaust á hann, en líklega væri best að setja upp hormónalykkju sem mundi mögulega fleyta mér gegnum sumarið og halda allra mestu blæðingunum í skefjum. Hún smellti lykkjunni upp í leg og sendi mig heim, reyndar með símanúmerið hennar í vasanum ef eitthvað skyldi koma upp á - ég mátti búast við smá blæðingu næsta sólarhringinn, og vonandi yrði svo allt í himnalagi.

Blóðflóð Sama kvöld sat ég heima í sófa og las bók eftir (réttlátlega) reiðan femínista. Einhverju sinni þegar ég ók mér til og skipti þunganum af hægri rasskinn yfir á þá vinstri fann ég blautan hita milli læra mér. Ég leit niður og ljósa áklæðið á sófanum var eldrautt - þegar ég stóð upp gusaðist blóð niður leggina mína og pollur myndaðist á parketinu. Ég reyndi að anda rólega, klemmdi lærin saman og mjakaði mér inn á klósett… Flóðið hélt áfram og eftir hálftíma baráttu mína við líkama minn ákvað ég að hringja í kvensjúkdómalækninn minn þó að klukkan nálgaðist miðnætti. Eiginmaður hennar svaraði í símann - þau voru í heita pottinum og líklega eyðilagði ég rómantískasta kvöld vorsins fyrir þeim. Hún bað mig umsvifalaust að fara á slysó og ég hlýddi. Á leðinni í bílnum var mig farið að svima dálítið þar sem ég sat á stafla af handklæðum og reyndi að halda löglegum hraða. Starfsfólkið á slysó var auðvitað yndislegt og sýndi því undraverðan skilning að ég skildi eftir eldrauð ummerki þar sem ég kom við á meðan biðin stóð yfir. Gullfallegur og vel ættaður læknir (ég þekki foreldra hans) sinnti mér af alúð, stimamjúkur hjúkrunarfræðingur setti upp nál og vökva og ég fékk blæðingahemjandi lyf í æði áður en ég var send heim tveimur tímum síðar með fyrirmæli um að leita til göngudeildar kvenna daginn eftir.

Líklega hafði fyrirferðin í leginu verið of viðkvæm til að þola nærveru nýrrar hormónalykkju. Það var í það minnsta ljóst að ég gæti ekki beðið lengi eftir aðgerð og heimsókn mín á göngudeild kvenna endaði með því að aðgerðardagur var ákveðinn í sömu viku.

Hvað ef? Núna helltust áhyggjurnar yfir mig: mundi ég vakna úr svæfingunni yfir höfuð? Mundi svæfingarhjúkrunarfræðingurinn fipast í barkaþræðingunni og brjóta í mér allar framtennurnar? Yrði mér gefinn aðeins of stór skammtur af morfíni fyrir misgáning svo að ég færi í öndunarstopp sem myndi vara aðeins of lengi og valda óafturkræfum heilaskemmdum? Mundi skurðlæknirinn óvart skera í sundur aftari hluta pudendal-taugarinnar sem hefur lykilhlutverki að gegna í taugaboðum við örvun snípsins? Yrði ég að lifa til æviloka án þess að fá aftur fullnægingu?

Síðasta atriðið er feitletrað því ég fékk gríðarlegar áhyggjur af afdrifum fullnæginganna minna. Ég reyndi að ræða þetta við skurðlækninn sem undirbjó mig fyrir aðgerðina en hún kom eiginlega af fjöllum - líklega hafði veslings konan aldrei áður fyrirhitt skjólstæðing með nákvæmlega þetta á heilanum í aðdraganda aðgerðar. Ég gúglaði og las mér til um kynferðislega virkni og ánægju kvenna fyrir og eftir legnám og komst að því að oftast hefði aðgerðin jákvæð áhrif á konur. Samt var ég viss um að í akkúrat MÍNU tilfelli myndi eitthvað skelfilegt gerast - sbr. ofangreindan lista - og líklega væri kynnautnum mínum einfaldlega lokið í þessu lífi.

Grænklæddi engillinn Aðgerðardagurinn rann upp, bjartur og fagur um miðjan maí árið 2015. Maja vinkona var svo yndisleg að fylgja skjálfandi konunni með fullnægingarkvíðann á kvennadeildina. Dökkhærð kona með blíðlegt augnaráð tók á móti okkur í morgunþögninni sem er svo sérstök á legudeildum spítala. Ég kvaddi Maju mína, fór í sturtu og spítalaföt, lagðist í rúm og beið örlaga minna.

Tvær konur af skurðstofunni sóttu mig. Ég hef örugglega verið náföl og undarleg í tilsvörum - slíkt var stressið. Mér var tjáð að ég fengi ekki Dormicum - betur þekkt sem kæruleysissprauta - að reynt væri að halda notkun þess í lágmarki vegna þess að fólk vakni betur úr svæfingu sé því sleppt. Gott og vel - mér var rúllað út úr lyftunni og inn í herbergi þar sem undirbúningur fyrir aðgerðina hélt áfram. Þar gerðist kraftaverkið - eldri kona, grænklæddur svæfingarhjúkrunarfræðingur, kom að rúminu mínu. Hún heilsaði mér brosandi og tók í höndina á mér. Líklega hefur hún fundið að ég var köld og þvöl af stressi því hún sleppti höndinni ekki nærri því strax. Hún staldraði við og hélt í höndina mína og sagði eitthvað ósköp hversdagslegt og ómerkilegt. Róleg og örugg nærvera hennar, snertingin og vinalegt augnaráðið urðu til þess að stressið mitt gufaði upp. Öryggi hennar, reynsla og ró urðu til þess að mér fannst eins og kollegar hennar á skurðstofunni hlytu líka að búa yfir því sama - ég varð róleg og loksins sátt við að ég einfaldlega yrði að treysta þessu fólki sem bráðum mundi hafa líflausan líkama minn til umsjónar í þann rúma klukkutíma sem aðgerðin mundi standa yfir.

Auðvitað gekk allt vel. Ég taldi niður í svæfingunni og svo vaknaði ég augnabliki síðar, heftuð saman á maganum. Morfín er prýðilegt og mér leið alls ekki illa næstu daga á sjúkrahúsinu. Eftir það tók við dvöl heima næstu sex vikur. Við útskriftina var mér tjáð af lækni að ég skyldi ekki stunda kynlíf fyrr en að þeim tíma liðnum. Ég spurði hvað hún ætti við… það reyndist vera samfarir eða að eitthvað væri sett upp í leggöngin. „Hvað með sjálfsfróun?“ spurði ég næst og fékk þær upplýsingar að líklega væri nú í lagi að gera tilraunir með ytri örvun kynfæranna eftir 2-3 vikur.

Gleðitár Hugsanirnar um fullnægingarlaust líf höfðu ekki yfirgefið mig alveg en eftir 2 og hálfa viku nákvæmlega ákvað ég að prófa. Ég kom mér notalega fyrir uppi í rúmi með eftirlætistitrarann minn og hóf ástarleik við sjálfa mig. Þegar ég fékk fullnægingu sem var beinlínis EKKERT frábrugðin þeim sem ég hafði átt að venjast fyrir aðgerðina helltist yfir mig hamingja, léttir og þakklæti. Ég fór að grenja af gleði og hringdi strax í bestu vini mína til að tjá þeim gleðifréttirnar!

(Æxlið reyndist blessunarlega vera góðkynja vöðvahnútur og undirrituð hefur notið lífs og losta leglaus allar götur síðan.)


 

Ráðgjöf: sendið tölvupóst til að bóka tíma

©2018 by Ragga Eiríks. Proudly created with Wix.com